133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[13:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2005. Virðulegur forseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, hefur gert grein fyrir henni eins og hún hefur verið lögð fram. Í skýrslunni er áréttað hlutverk og markmið með Ríkisendurskoðun, eða eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun er óháð stofnun sem starfar á vegum Alþingis samkvæmt lögum nr. 86/1997. Hún sinnir tveimur meginverkefnum: Fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun.

Ríkisendurskoðun er annars vegar ætlað að votta að reikningsskil ríkisins gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við góða reikningsskilavenju, athuga innra eftirlit stofnana og fyrirtækja ríkisins og meta hvort það tryggir viðunandi árangur. Hins vegar skal hún kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, þ.e. hvort stofnanir og fyrirtæki gæti hagkvæmni og skilvirkni í rekstri sínum og fylgi gildandi lagafyrirmælum í því sambandi. Að auki veitir stofnunin bæði þingnefndum Alþingis og ríkisstofnunum ýmiss konar ráðgjöf og leiðbeiningar, m.a. við gerð fjárlaga.“

Mér þykir rétt, frú forseti, að byrja ræðu mína á að fara yfir þessi skilgreindu hlutverk sem Ríkisendurskoðun hefur.

Eins og komið hefur fram í ræðu forseta þingsins, frú Sólveigar Pétursdóttur, hefur Ríkisendurskoðun skilað skýrslum til Alþingis. Þær skýrslur hafa jafnan, flestar ef ekki allar, verið teknar fyrir í fjárlaganefnd, hver einstök skýrsla. Eins og fram hefur komið var skilað skýrslu um stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands; skýrslu um hæfi Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins; greinargerð um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2004; stjórnsýsluúttekt á Heilbrigðisstofnun á Blönduósi; úttekt á kaupum og sérfræðiþjónustu; þjónustu við aldraða — stjórnsýsluúttekt; endurskoðun ríkisreiknings 2004; um Íbúðalánasjóð, um aðdraganda og gerð lánasamninga sjóðsins við fjármálastofnanir og Landspítala – háskólasjúkrahús, árangur 1999–2004.

Þessar skýrslur hafa flestar ef ekki allar komið til umfjöllunar í fjárlaganefnd án þess að um þær hafi verið gerðar sérstakar ályktanir, sem er alveg hárrétt hjá hæstv. forseta Sólveigu Pétursdóttur. Það er alveg hárrétt. Það hefur ekki verið ályktað um þær en hins vegar hefur verið farið í gegnum þær með ríkisendurskoðanda.

Að sjálfsögðu kemur greinargerð Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning til umfjöllunar um leið og ríkisreikningur kemur fyrir Alþingi. Síðan koma umsagnir og álit á framkvæmd fjárlaga inn í umræðuna um afgreiðslu fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga á hverjum tíma.

Ég tek undir þau orð hæstv. forseta að aukin skilvirkni gæti falist í því að viðkomandi nefndir þingsins taki fyrir þá málaflokka sem Ríkisendurskoðun hefur tekið út eða gefa álit um á hverjum tíma. Viðkomandi nefnd ætti að taka það til formlegrar umfjöllunar og skila um það formlegu áliti til Alþingis. Það má líka hugsa sér að með hverri skýrslu fylgi umsögn viðkomandi nefndar og skýrslan tekin til umræðu hér á þinginu. Þingið fjallaði þar með um þau málefni sem úttekt hefur verið gerð á eða skýrsla gerð um. Slík umræða getur verið viðameiri, stutt eða löng eftir eðli málsins. En Ríkisendurskoðun heyrir beint undir þingið og þess vegna er mikilvægt að þau tengsl og sú ábyrgð sé ræktuð, varin og studd til að tryggja sem besta skilvirkni í þeim málaflokkum sem um er fjallað, einnig til að standa við bakið á Ríkisendurskoðun gagnvart þinginu.

Ríkisendurskoðun lendir eðli málsins samkvæmt oft á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins vegna þess að hún gefur oft umsagnir eða álit á verkefnum og gjörðum framkvæmdarvaldsins, hvort heldur er einstakra ráðuneyta, stjórnsýsluverkefna á vegum ráðuneytanna eða einstakra stofnana, sem eru hluti af viðkomandi framkvæmdarvaldi. Ríkisendurskoðun lendir oft þarna á milli og við vitum að framkvæmdarvaldið sækir mjög í að hafa áhrif á það sem um það er sagt eða það sem lagt er til. Þingið þarf því að standa meðvitað í störfum sínum með Ríkisendurskoðun, hlutverki hennar og ábyrgð gagnvart þinginu.

Ég segi þetta að gefnu tilefni. Einn veigamesti þátturinn í störfum Ríkisendurskoðunar hefur verið að gefa umsögn um framkvæmd fjárlaga, um fjárlagavinnuna, hvernig staðið er við fjárlög innan ársins og hvernig staðið er að lokafjárlögum, ríkisreikningi o.s.frv. Við sem þekkjum þá umræðu, sem ítrekað hefur komið upp á Alþingi, vitum að beinar ábendingar og aðfinnslur Ríkisendurskoðunar við framkvæmd fjárlaga hafa ekki hvað síst átt við ráðherra og ráðuneytin sjálf, ekki bara við einstakar stofnanir heldur og hvernig ráðherrar og æðsta stjórn ríkisins umgengst fjármál ríkisins, fjárlög og fjárreiðulög. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt. Ég gæti tínt til mörg dæmi en þetta hefur áður verið rætt á þingi. Ég á sæti í fjárlaganefnd, frú forseti, og þekki þessa umræðu mjög vel.

Gallinn er sá að þótt við í fjárlaganefnd séum yfirleitt nokkuð sammála um þær aðfinnslur sem Ríkisendurskoðun kemur fram með á hendur framkvæmdarvaldinu um hvar þurfi að bæta úr þá er eins og enginn axli þá ábyrgð að fylgja því eftir. Við sjáum ár eftir ár sömu athugasemdir og ábendingar frá Ríkisendurskoðun varðandi meðferð fjármála af hálfu ráðuneyta og ráðherra án þess að úr sé bætt. Við munum upplifa það aftur í haust, innan tíðar þegar fjárlög og fjáraukalög koma á dagskrá til 2. umr. Þá munum við aftur upplifa, frú forseti, hvernig ábendingar og beinar aðfinnslur, sjálfsagðar og eðlilegar sem styðjast við lög af hálfu Ríkisendurskoðunar, skila sér ekki í því að farið sé eftir þeim. Áfram mun farið á svig við lög við afgreiðslu fjárlaga, hvort sem það eru fjáraukalög eða fjárlög.

Ég tel að þetta sé umhugsunarefni fyrir þingið. Forsætisnefnd ætti að taka það til gaumgæfilegrar skoðunar, af því að forsætisnefnd fer með hin formlegu samskipti þingsins við Ríkisendurskoðun, að skoða eftirfylgni ábendinga, beinna aðfinnslna og ráðlegginga af hálfu Ríkisendurskoðunar, að ég tali ekki um það sérstaklega gagnvart fjárveitingavaldinu og framkvæmdarvaldinu. Ég tel ástæðu til þess. Ég ætla ekki að fara lengra út í þau mál að sinni en fer ítarlegar í þessa umræðu gefist tilefni til.

Ég legg áherslu á að við styrkjum stöðu þingsins með embættum eins og Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis. Ég hef einnig lagt til að þingið fengi efnahagsskrifstofu þingsins, sem væri þinginu, þingmönnum og nefndum þess, til sjálfstæðs ráðuneytis við mat á stöðu efnahagsmála, fjármála og fjárlagagerð. Þannig þyrftum við ekki, eins og núna, að styðjast nánast alfarið við tillögur og umsagnir fjármálaráðuneytisins, sem ég kasta ekki rýrð á en þær koma frá framkvæmdarvaldinu gagnvart löggjafarvaldinu. Þingið er mjög veikt eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, illu heilli. Það hefði mátt þróa hana og gera að öflugri stofnun í þágu þingsins. Það var ekki gert heldur var hún með gerræðislegum hætti lögð af. Þar með veiktist staða alþingismanna í að fást við þessi mál. Ég tel að það eigi einmitt að styrkja slíkar stofnanir.

Eitt af því sem er á sviði Ríkisendurskoðunar, sem ég tel að hún þurfi að sinna betur, en kveðið er á um að það sé hluti af verkefnum hennar, eru umhverfismálin. Henni ber að taka sérstaklega til skoðunar umhverfisvernd og hvernig ríkið, stofnanir þess og Alþingi, axla alþjóðlegar skuldbindingar sem við erum aðilar að. Það á einnig við ákvarðanir innan lands í stjórnsýslunni og hvernig þeim er fylgt eftir. Ég tel það gríðarlega mikilvægt með vaxandi umræðu um mikilvægi umhverfisverndar og umhverfismála að Ríkisendurskoðun sinni því hlutverki betur en nú er gert.

Eitt af þeim verkefnum sem Ríkisendurskoðun tókst á hendur á árinu 2005 var, eins og ég nefndi áðan, að athuga hæfi Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins, eins og segir í titlinum. Ég ætla ekki að rifja það mál upp efnislega en ég tel það ekki hafa verið hlutverk Ríkisendurskoðunar að fjalla um hæfi ráðherra og allra síst forustumanna í ríkisstjórninni. Ég tel það ekki vera á verksviði hennar og að hún hefði átt að halda sig frá slíku. Hún getur tekið á fjármálalegum þáttum og ýmsum grunnstjórnsýsluþáttum en atriði sem lúta að lögmæti, að beinum lögbrotum eða slíku, á Ríkisendurskoðun ekki að hafa afskipti af eða koma fram sem einhver dómstóll um hæfi ráðherra eins og í þessu tilviki.

Ég vil nefna þetta vegna þess að ég tel að ef við lítum á starfsskýrslu fyrir árið 2005 þá hafi þar orðið á grundvallarmistök í starfi Ríkisendurskoðunar. Ég vona að þau komi ekki til með endurtaka sig en ég legg (Forseti hringir.) áherslu á að þingið standi vörð um Ríkisendurskoðun og stöðu hennar.