136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

Íbúðalánasjóður.

108. mál
[14:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tel afar mikilvægt að allri óvissu um stjórnsýslulega stöðu Íbúðalánasjóðs sé eytt. Við höfum heyrt það frá stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, núna síðustu missirin að stjórnsýsluleg staða Íbúðalánasjóðs geti verið í óvissu. Stöðugt koma fram breytilegar upplýsingar eða áform um hver hún skuli vera. Ég er t.d. með viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hæstv. utanríkisráðherra, frá 27. maí 2007 þar sem rætt er um að færa Íbúðalánasjóð undir fjármálaráðuneytið. Það sem hæstv. ráðherra segir er ekki orðið að veruleika enn þá en það er í umræðunni.

Síðan höfum við heyrt að til standi að breyta rekstrarformi Íbúðalánasjóðs, að minnsta kosti að hluta. Þvílíkar yfirlýsingar hafa gengið ítrekað og leitt til óöryggis í kringum Íbúðalánasjóð. Við sem höfum staðið vaktina um Íbúðalánasjóð og barist gegn öllum áformum og hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna um einkavæðingu Íbúðalánasjóðs eða skerða stöðu hans eða hlutverk á einhvern hátt, getum nú fagnað því að við höfum Íbúðalánasjóð og þakkað fyrir það. Þá þurfum við líka að eyða allri þessari umræðu, öllum þessum áformum, öllu því sem valdið getur tortryggni um stöðu Íbúðalánasjóðs. Við heyrðum hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan að hann treysti sér ekki til að kveða skýrt upp úr um það af sinni hálfu að Íbúðalánasjóður ætti skilyrðislaust að vera áfram sem þjónustustofnun í eigu ríkisins og kæra á hendur honum verði afturkölluð. Hann treysti sér ekki til að gefa þá yfirlýsingu og því spyr ég nú hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur:

Hyggst ríkisstjórnin draga til baka öll áform sín um uppskiptingu og hlutafélagavæðingu Íbúðalánasjóðs og tryggja óumdeilda stöðu hans án þess að vera stöðugt að koma með hugmyndir um breytingar þar á? Ég held að það sé mikilvægt að við fáum hrein og skýr svör þannig að veruleikinn um stjórnsýslulega framtíð Íbúðalánasjóðs sé klár.