137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður mun að sjálfsögðu standa við sannfæringu sína, ég átti reyndar ekki von á öðru svari. En þetta undirstrikar það hvaða staða kynni að koma upp í þjóðfélaginu ef við leggjum upp með það fyrirkomulag sem hér er lýst eða lagt upp með í frumvarpinu, að það kynni að valda miklum deilum í samfélaginu og mjög erfiðum ef þingviljinn og samviska þingmanna stæði til eins en naumur þjóðarmeirihluti í atkvæðagreiðslu þar sem fáir taka þátt stæði til annars. Ég mundi ætla að það væri nauðsynlegt að skoða þennan þátt frumvarpsins til að reyna að girða fyrir þessa stöðu, m.a. með stífari kröfum um þátttöku og/eða aukinn meiri hluta o.s.frv. Ég vil reyndar sérstaklega lýsa því yfir að ég er ánægður með að tekið sé fram að ekki ætti að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu t.d. fjárlög, skattafrumvörp og slíkt. Ég held að slíkt kynni að valda miklum usla í allri okkar stjórnskipun.

Frumvarpið sjálft er líka áhugavert vegna þess að við erum einmitt í þingsölum og á nefndarfundum að ræða um Evrópumálin, mögulega aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og eitt af því sem skiptir máli þar er einmitt sá möguleiki sem þjóðin á að hafa, að eiga síðasta orðið í því máli öllu. Hér í þingsal hafa verið uppi hugmyndir um að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu áður en stjórnarskrá er breytt um það hvort samningur taki gildi eða ekki og væri sú aðferð höfð yrði það þingsins að hafa síðasta orðið um það hvort gengið yrði inn í ESB eða ekki. Ég hefði áhuga á, í ljósi þessarar umræðu, að heyra hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að betra sé að breyta stjórnarskránni fyrst til að skapa möguleika fyrir endanlega atkvæðagreiðslu fyrir (Forseti hringir.) þjóðina þannig að þjóðin geti átt síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega inngöngu Íslands í ESB.