137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurningarnar. Að sjálfsögðu er lagt upp með þetta frumvarp með það að markmiði að það verði gildandi með breytingu á stjórnarskrá þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur séu ekki einungis ráðgefandi. Ég þykist skynja að hv. þingmenn séu báðir að vísa til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla í kringum aðildarviðræður verði ráðgefandi en ekki bindandi. En eins og ég segi á ég ekki von á að þetta frumvarp nái í gegn fyrir þann tíma nema einhverjir stórkostlegir hlutir sem eru ófyrirséðir gerist í samfélaginu á næstu mánuðum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athugasemd. Það er alveg ljóst í okkar huga að það á að vera einn maður, eitt atkvæði og mun ég kanna af hverju þessi varnagli var settur þarna inn.