137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir andsvarið, það var nú varla andsvar, þetta var eiginlega meðsvar þannig að ég á dálítið erfitt með að svara því.

En kannski varðandi rafrænar kosningar, vandamálið er það að ef við ætlum að hafa leynilegar kosningar þá þekkja fæstir hinar leyndu leiðir rafrásanna. Það eru ótrúlegir möguleikar á því að fara inn í slík kerfi og þeir sem hanna slík kerfi hafa iðulega aðgang að því langt umfram það sem fólk heldur. Menn átta sig kannski ekki alltaf á því að allur netpóstur liggur meira og minna opinn fyrir fagfólki. Menn verða bara að treysta því að fólk sé ekki að brjóta þann trúnað sem því er veittur.

Ef við ætlum að hafa leynilegar kosningar þá er það alls ekkert einfalt. Reyndar sá ég í Kasakstan dálítið skemmtilegt kerfi þegar ég var þar við kosningaeftirlit, mjög skemmtilegt og einfalt kerfi. Þá kusu menn rafrænt, fengu fjögurra stafa tölu og gátu borið saman um kvöldið hvort sú fjögurra stafa tala væri hjá þeim flokki sem þeir höfðu ætlað að kjósa. Það voru ekki nema örfáir sem tékkuðu á þessu en það var nóg að einhverjir gerðu það. Það bar ekkert á því endilega hvaða flokk þeir voru að skoða, þetta var svona tékk á því hvort atkvæðið hefði farið á réttan flokk. Þetta var í sjálfu sér mjög einfalt kerfi og kubburinn eða það sem menn fóru með inn í kjörklefann gat bara geymt þann flokk sem kjósandinn kaus og umrædda fjögurra stafa tölu, það var ekkert annað hægt að geyma á honum og hægt var að kanna það út í hörgul af því að þetta var svo einfalt kerfi. Vandinn er sá að menn treysta ekki slíku kerfi vegna þess að þeir sem hanna kerfið geta líka farið í gegnum það og kannað allt hvernig menn hafa kosið.