138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[10:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi þær ráðningar sem voru ræddar hér áðan eða ráðningar í ráðuneyti og annað. Ég vil upplýsa þingheim um að 8. september óskaði ég eftir því að upplýsingaþjónusta þingsins útvegaði mér upplýsingar um nokkra þætti er sneru að ráðningum, m.a. ráðningum eða skipan í full störf frá 1. febrúar, skipan í hlutastörf, tímabundin verkefni, sérverkefni, ráðningarauglýsingar og annað. Eftir dúk og disk hafa flest svarað en ekki öll.

Í dag er 12. nóvember, ekki rétt? Enn hafa ekki öll ráðuneyti og undirstofnanir ráðuneyta svarað þeim spurningum sem sendar voru í gegnum upplýsingaþjónustu Alþingis. Hverjir er það sem nýta sér upplýsingaþjónustu Alþingis yfirleitt, eru það ekki þingmenn? Hvernig sendur á því að framkvæmdarvaldið virðir ekki þá beiðni sem sett er fram? Það virðir hana raunar að vettugi. Hvað hefur framkvæmdarvaldið að fela? Hvað hefur ríkisstjórnin að fela í þessum málum?

Ég vil bara upplýsa það hér að gengið verður á eftir því að fá þessi svör og þau verða vitanlega skoðuð nánar og beiðnin ítrekuð ef ekki koma við þessu þau svör sem eru ásættanleg, þ.e. að öllu sé svarað hreint og beint út. Það er klárlega einhver maðkur í mysunni sem stjórnvöld og stjórnarliðar eru skíthrædd við, afsakið orðbragðið.