138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum þessa fyrirspurn og svarið við henni er já. Ég hef litið svo á að í öllum flokkum væri sú skoðun að það væri þjóðarviljinn í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ætti fyrst og fremst að ráða niðurstöðu í þessu máli, þannig að svar mitt er já. En vissulega getur þetta komið upp sem hv. þingmaður nefndi. Og af því að þingmaðurinn nefndi fullveldisafsal á það sér nú ekki stað nema með stjórnarskrárbreytingu eftir að við höfum fengið viðunandi niðurstöðu sem við teljum rétt að fari fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef hún er samþykkt fer málið fyrir þingið og þá eru lagðar fram breytingar á stjórnarskránni þar sem nauðsynlegt framsal er sett inn í frumvarp. Ef það er samþykkt þarf að rjúfa þing og boða til almennra alþingiskosninga og þá er það nýtt þing sem þarf að staðfesta þá stjórnarskrárbreytingu. Það getur auðvitað komið upp sú staða að nýtt þing samþykki ekki þá stjórnarskrárbreytingu þannig að það er ýmislegt sem getur komið upp í þessu ferli. Það hefur aldrei hvarflað að mér annað en að það sé fyrst og fremst vilji þjóðarinnar sem eigi að ráða í þessu efni, í þjóðaratkvæðagreiðslu.