138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir um margt ágæta ræðu. Ég tek undir með henni að skoða þurfi stjórnarskrána. Auðvitað er hægt að skoða ákveðna afmarkaða þætti í þeim efnum en mig furðar svolítið þegar hún nefnir að menn hafi blandað inn mjög umdeildum málum, til að mynda auðlindamálum. Ég hef kynnt mér þetta og mér hefur sýnst að þær stjórnarskrárbreytingar sem um ræðir hafi verið einna umdeildastar meðal sjálfstæðismanna. Þau auðlindamál sem átti að setja inn í stjórnarskrá á sínum tíma voru hvað umdeildust í Sjálfstæðisflokknum því að sjálfstæðismenn hafa almennt verið á móti því að auðlindir til sjávar og annað séu í þjóðareign. Ekki meira um það.

Mig langaði að beina einni spurningu til hv. þingmanns. Hver er hennar skoðun á því að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu?