139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim farvegi sem atvinnumál á Suðurnesjum, mér liggur reyndar við að segja samfélagsmálin á Suðurnesjum, eru komin í eftir samkomulag milli ríkisstjórnar og sveitarstjórnarmanna í gær. Ég held að þarna séu menn kannski loksins komnir á réttan stað með málið. Við höfum horft upp á það allt of lengi að menn hafa skellt skuldinni á hina og þessa og ég tel að það skili okkur engu.

Þarna hafa menn einblínt of mikið á töfralausnir, sérstaklega eina töfralausn, stóra álverið í Helguvík. Ég vil segja á þessum tímapunkti að álver sem eru bara til í excel-skjölum ár eftir ár skapa engin störf. Skyldur okkar í þinginu, stjórnvalda og sveitarstjórnarmanna á svæðinu eru að bindast samtökum um að tryggja að það fólk sem hefur ekki störf og er búið að vera atvinnulaust mánuðum og missirum saman fái úrlausn sinna mála. Þess vegna verðum við að tryggja að það séu mörg tækifæri í boði á sama tíma. Það sama hentar ekki öllum. Það hentar ekki öllum að vinna í álverum. Konur eru í kringum helmingur atvinnulausra á Suðurnesjum. Við vitum það í ljósi sögunnar að konur vinna síður í álverum en karlar og þess vegna eru ríkisstjórnin og sveitarstjórnarmenn á svæðinu á hárréttum stað með því að bjóða fjölbreytt úrræði sem henta mismunandi, taka á menntunarvandanum, taka á félagslega vandanum, taka á atvinnuvandanum. (Gripið fram í.)

Þau verkefni sem þarna er boðið upp á eru sem betur fer fjölbreytt. Í því liggur lausnin. Við verðum sameiginlega, hvar í flokki sem við stöndum, að tryggja að fólk fái störf, ekki að það sé eitt risastórt álver sem eigi að leysa allan vanda og koma öllum í störf. Við erum búin að bíða eftir því núna síðan 2006 og það er ekkert að gerast. Það eru enn fjölmörg ljón í þeim vegi. Þarna eru menn á réttum stað. Sameinumst um það á þinginu, hvar í flokki sem við stöndum, að tryggja að núna fái atvinnulausir á Suðurnesjum (Forseti hringir.) loksins úrlausn sinna mála.