140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á villandi umfjöllun RÚV um frumvarp um breytta greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði. Tilgangur frumvarpsins er að verja sjúklinga fyrir háum lyfjakostnaði en gildandi lög gera það ekki. Kostnaður ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna á lyfjum mun haldast óbreyttur verði frumvarpið að lögum enda er markmið breytinganna að jafna lyfjakostnað, ekki spara útgjöld.

Upphafsorð fréttar RÚV voru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Dæmi eru um að sjúklingur hafi þurft að greiða tæpar 200 þús. kr. fyrir spítalameðferð við brjóstakrabbameini. Sé endurhæfing og lyfjakostnaður samkvæmt nýju frumvarpi tekinn með er kostnaður sjúklings nærri 370 þús. kr.“

Við hljótum að líta það alvarlegum augum þegar fjölmiðill birtir rangar eða villandi upplýsingar um mikilvæga hagsmuni almennings. Virðulegi forseti. Frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi hefur ekkert með endurhæfingu að gera. Áhrif þess á kostnað snúa eingöngu að lyfjakostnaði. Það er rétt að nú þurfa krabbameinssjúklingar ekki að greiða fyrir krabbameinslyf. Þeir geta hins vegar þurft að mæta kostnaði vegna annarra lyfja líkt og aðrir og verða varðir gegn háum lyfjakostnaði verði frumvarpið að lögum. Öll lyf sem veitt eru á sjúkrahúsum verða áfram sjúklingum að kostnaðarlausu, þar með talin ýmis krabbameinslyf. Í frétt RÚV var ekki getið um þessar staðreyndir sem skipta verulega miklu máli. Fréttin gaf til kynna að kostnaður sjúklings vegna krabbameinsmeðferðar mundi hækka um 170 þús. kr. verði frumvarpið að lögum. Það er alrangt, virðulegi forseti.