140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er gríðarleg ábyrgð sem felst í því að samþykkja fjáraukalög og þar verður hver og einn þingmaður að gera upp við sína samvisku. Að sjálfsögðu þurfa þingmenn þá að hafa fyrir framan sig öll efnisatriði málsins.

Frú forseti. Ég sit í efnahags- og viðskiptanefnd og þar fengum við þessar tvær skýrslur í morgun undir trúnaði. Við ákváðum, til þess að binda okkur ekki hvað málflutning okkar varðar í þessu máli, að skila skýrslunum til baka þangað til við fengjum það á hreint hvernig við mættum tjá okkur um innihald þeirra þegar að því kæmi.

Nú liggur fyrir að ekki er um trúnaðarmál að ræða en sá sem hér stendur á eftir að lesa þessar skýrslur. Er það virkilega þannig, frú forseti, að keyra eigi þetta mál á dagskrá án þess að við höfum tóm til að fara efnislega ofan í það? Í guðanna bænum, frú forseti, ég skora á frú forseta að fresta fundi og gefa okkur tóm til (Forseti hringir.) að kynna okkur nauðsynleg efni þessa máls.