141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

80. mál
[16:28]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja örfá orð í belg þar sem þessi merka tillaga er hér til umfjöllunar. Þar ályktar Alþingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða málefni barna- og ungmenna með tal- og málþroskaröskun með markvissri aðgerðaáætlun í samræmi við niðurstöður þeirrar skýrslu sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur hér gert ágætlega skil.

Ég held að um afar brýnt og mikilvægt mál sé að ræða, og kannski brýnna og mikilvægara en við gerum okkur almennt grein fyrir, vegna þess hversu mikilvægt tjáningartæki málið er. Það er mikilvægt að tal- og málþroski sé í lagi til að geta náð tökum á lestri og síðan rituðu máli. Þetta er afar mikilvægur þáttur í þroskaferli sérhvers barns og ég tala nú ekki um þegar ungmenni eiga í hlut sem hafa jafnvel alla sína tíð glímt við vanda. Í skýrslunni kemur einnig fram að börn sem eiga í vandræðum með tal eða mál lenda oft í vandræðum með hegðun sína líka vegna þess að þau eiga svo erfitt með að gera sig skiljanleg.

Efni tillögunnar er fyrst og fremst það að við teljum mjög mikilvægt að nú þegar verði brugðist við og að mennta- og menningarmálaráðherra grípi til aðgerða. Það flækir málið að það heyrir ekki bara undir eitt ráðuneyti og ekki heldur undir eitt stjórnsýslustig. Það þarf því markvisst samstarf til þess að þetta mál nái fram að ganga með þeim árangri sem við vonumst eftir.

Skimun og snemmtæk íhlutun skiptir afar miklu máli og enn og aftur er það bæði á vegum heilbrigðis- og menntamálayfirvalda og bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga þannig að samstarf skiptir mjög miklu máli.

Aðalatriðið er að tillagan kemur hér fram og vonandi munu allir þingmenn samþykkja að gripið verði til þessara aðgerða. Við gerum okkur náttúrlega grein fyrir því að það fæst ekki fyrir ekki neitt, það kostar eitthvað af peningum, og við verðum að gæta þess að fjármagn fylgi með. En það skiptir miklu máli, eins og segir í niðurlagi tillögunnar, að tal- og málþroskaraskanir séu skoðaðar heildstætt og niðurstöðum skýrslunnar sé fylgt eftir með það að markmiði að ráðist verði í úrbætur hratt og vel og með því fjármagni sem til þarf. Jafnvel þó að við fáum ekki allt fjármagnið á fjárlögum næsta árs er mikilvægt að gerð verði áætlun um það hvernig við byggjum þessa þjónustu upp til langs tíma.