145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ætlar Framsóknarflokkurinn að segja okkur það, eftir að hafa lofað þjóðinni afnámi verðtryggingar, að þeir hafi sérstaklega falið Bjarna Benediktssyni, yfirlýstum andstæðingi afnáms verðtryggingar, forræði fyrir málinu í sameiginlegri ríkisstjórn? Auðvitað ekki. Auðvitað var málið á forræði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og auðvitað setti hann starfshóp um verðtrygginguna sem skilaði skýrslu sem beðið var um að hann flytti í þinginu. Hann hafnaði því líka af því að hann þorir einfaldlega ekki að ræða stóra loforðið sem hann ákvað að svíkja. Svo einfalt er það. Hann fer með samræmingu innan ríkisstjórnarinnar. Félags- og húsnæðismálaráðherra kemur að verðtryggingarmálum, forsætisráðherra kemur að verðtryggingarmálum, fjármálaráðherra kemur að verðtryggingarmálum. Það er ekkert nema sjálfsagt að þingið knýi forsætisráðherra til að ræða stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar og svikin á því, afnám verðtryggingar, hér í þinginu. Og að óbreyttir þingmenn Framsóknarflokksins komi gjammandi um afnám verðtryggingar dag eftir dag þegar forsætisráðherrann vill ekki vera ábyrgur fyrir því (Forseti hringir.) er auðvitað að verða frekar pínlegt, virðulegur forseti. Ég hvet til þess að (Forseti hringir.) forsætisráðherra komi hingað og ræði þetta mál, hvort sem hann vill það eða ekki.