145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að blanda mér ögn í efnislega umræðu um þetta mál, verðtrygginguna, sem forseti hefur leyft undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég veit ekki hvaða svik menn eru að tala um. Síðast þegar ég vissi var dálítið eftir af þessu kjörtímabili, er það ekki? Eigum við ekki að spyrja að leikslokum hvernig þetta fer og eigum við ekki að fara yfir það í rólegheitum?

Ég kveinka mér ekkert undan því að eiga umræðu við þingmenn, hv. þm. Kristján L. Möller og fleiri, um þetta mál, alls ekki. (Gripið fram í.) Takk, fyrir þetta. Nú er kallað ákaft fram í. En eigum við ekki að spara okkur svikabrigslin og upphrópanirnar og sjá hvernig þessu máli vindur fram? (Gripið fram í.) Andstæðingar verðtryggingarnar eru víða. Þeir eru líka hér í þessum sal og það eru ágætishugmynd að fá það fram hvernig afstaða manna liggur í málinu. Ég held að það sé alveg ágætt og ég er til í það hvenær sem er. En ég legg áherslu á þetta: Það er enginn búinn að svíkja neitt. (Gripið fram í.) Kjörtímabilið er ekki búið. (Gripið fram í.)