146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski einmitt vandamálið í mínum huga og veldur vantrú minni, þetta með pólitísku áherslurnar eins og hv. þingmaður kom inn á, því að pólitískar áherslur mínar og pólitískar áherslur hæstv. sjávarútvegsráðherra eru kannski ekki þær sömu. Þannig að ég deili ekki þessari ofurtrú hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur á að ráðherra muni í reglugerðinni taka endilega tillit til allra þeirra sjónarmiða, sérstaklega ekki þegar þau eru svona opin eins og mér finnst þau vera í greinargerðinni.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fór ágætlega yfir ýmsar leiðir hér í pontu í svari við andsvari mínu rétt áðan. En ekkert af þeim svörum er þó í greinargerðinni. Að taka tillit til byggðasjónarmiða er ansi opið. Hvað þýðir það? Samþjöppun, 12% eru ekki hér inni og að virða sérstöðu minni útgerða. Þetta er allt saman ansi opið. Sérfræðingar eru allra góðra gjalda verðir en þeir eru ekki þeir sem setja pólitísku stefnuna. Þeir geta smíðað verkferlana og tækin sem við nýtum okkur til að allt verði sem best úr garði gert við það að koma á pólitísku stefnunni. En í þessum efnum snýst pólitíska stefnan um það sem hér er lítillega tæpt á: Eigum við í úthlutun eða uppboði á kvóta að taka raunverulegt tillit til byggðasjónarmiða eins og hér var komið inn á? Á að bjóða þetta út á sérstökum svæðum? Á að nota eitthvað af þessu eingöngu á ákveðnum svæðum og engum öðrum o.s.frv.? Ég sakna þess að það sé ekki betur farið í þessi mál í greinargerðinni. Mér finnst verið að setja töluvert vald í hendur ráðherra sem með einfaldri reglugerð, án þess að spyrja Alþingi eða ræða það við Alþingi á nokkurn hátt, getur komið með reglurnar í kringum þetta.