146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það varðar uppboð á umframaflaheimildum umfram úthlutun í þorski samkvæmt því sem sjávarútvegsráðherra mun gefa út í haust.

Það kemur fram í þessari umræðu að hér sé um að ræða eins konar æfingaútboð á aflaheimildum. Ég vil vara við því að við förum í eitthvert æfingakerfi með fiskveiðiúthlutanir. Það kemur hér fram að við eigum að fara að ráði Færeyinga og Norðmanna. Ég held að þeir hafi brennt sig allalvarlega á að bjóða út fiskveiðiheimildir og séu nú að draga í land með það. Þar seldust allar fiskveiðiheimildirnar úr landi og varð nánast ekkert eftir af þeim heima. Það er líka annað sem hér kemur skýrt fram, það er að hæstbjóðandi eigi að fá úthlutunina. Reyndar er talað um að ráðherra eigi að gera tillögur um hvernig sé hægt að skipta þessu upp. Það er ansi flókið þegar á að taka til greina byggðasjónarmið og útgerðarflokkasjónarmið, þau eru margs konar. Það eru uppsjávarskip, trollbátar, netabátar, línubátar, trillur og dagróðrabátar. Þetta eru náttúrlega alls konar útgerðarflokkar sem við þurfum að taka til greina. Þeir eru reknir með mjög mismunandi afkomu. Hvernig á þá að reikna út hæsta mögulega boð?

Það kemur fram í greinargerðinni að ólíklegt sé að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað með markaðslegum forsendum. Það getur vel verið að það verði einhvern tíma hægt. Ég held að við höfum ekki séð þá leið enn þá að það sé víst að það skili okkur meiru en veiðigjaldið í dag. Ég hef ekki séð neitt yfirlit yfir það að með því að fara markaðsleið tryggjum við hærra gjald. En það má vel vera að það markist af því sem útgerðin getur betur ráðið við. En ég bendi þá aftur á að það munu alltaf verða þeir sterkustu sem geta boðið í þennan afla. Það verður útgerð sem er þegar mjög sterk fyrir á markaði, rótgróin útgerð með sín bankamál í góðu lagi. Þegar slík útgerð á að fara að keppa á móti annarri útgerð í sama útgerðarflokki en hefur kannski gengið brösuglega að gera út getur verið erfitt fyrir slíka útgerð að fjármagna boð í uppboði á fiski, nákvæmlega eins og er á fiskmörkuðum núna. Nú þurfa allir að vera með ábyrgðir. Þær eru takmarkaðar við ákveðið magn af fiski. Og fyrst ég er að tala um fiskmarkaði er það auðvitað ekki rétt að kaupandi og seljandi komi sér saman um verð á fiskmörkuðum. Þar er bara framboð af fiski og kaupandinn sem kaupir og ræður verðinu. Það fer eftir magni hverju sinni. Það er væntanlega nákvæmlega það sama og í því útboði sem hér er stungið upp á.

Mér finnst líka varðandi þetta annars ágæta frumvarp sem er ágætt innlegg í þessa umræðu, sem við höfum kannski ekki tekið nógu mikið á þingi, að það er auðvitað ekki hægt að draga tennurnar svona úr stóru kerfi með því að taka eina fisktegund út úr með öðruvísi reglur en gilda um allar aðrar fisktegundir í stað þess að hafa þá þrek í það sem við höfum reyndar ekki haft á síðustu tveimur kjörtímabilum að fara yfir fiskveiðistjórnarkerfið og gera margs konar breytingar á því sem bæði ég og fleiri teljum að þurfi að gera. Ég held að við náum ekki árangri í að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu með því að rífa eina og eina tönn úr því. Ég held að við þurfum að taka þetta heildstætt. Það er margt í framsalinu sem við þurfum að skoða. Þar eru líka brotalamir sem þarf að bæta. Ég held að við þurfum að hafa þrek til að fara í þá vinnu og taka þetta heildstætt. Við getum ekki farið í einhverja æfingaferð með þorskinn og ætlað síðan að láta aðrar tegundir koma á eftir.

Það hefur auðvitað komið fullt af tillögum fram um svona úthlutanir, hámarksúthlutanir eins og verið er að tala um í þessu frumvarpi. Mér finnst auðvitað ekkert úr vegi að það verði rætt á vettvangi þingsins og í atvinnuveganefnd og í þingflokkunum. En hvenær kemur að því að einhver ákveðin fisktegund er orðin svo há í úthlutun að ekki sé eðlilegt að útgerðin fái meira? Það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Það er auðvitað ein þeirra hugmynda sem við þurfum að velta upp þegar kemur að nýju kerfi. Þá má t.d. taka allar þessar helstu tegundir og spyrja: Hver er meðaltalsúthlutun í ýsu, þorski, ufsa, karfa, frá upphafi kvótakerfisins? Og notast þá við eitthvert slíkt meðaltalsútboð og það verði þá ákveðið að dreifa því magni sem er umfram það með öðrum hætti, með útboði eða á einhvern annan hátt.

Mér finnst að við þurfum að hafa þrek til að ræða saman um þetta. Ég tek undir að það erum auðvitað við í þessu húsi, í þessum sal, sem berum ábyrgð á því að taka þessar ákvarðanir. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt. Hér inni er ágætisþekking á þessum málum. Hér eru reynslumiklir þingmenn sem maður hefur starfað með hér í nefndum. Ég er sannfærður um að við getum fundið ágætisleiðir til að laga fiskveiðistjórnarkerfið. Útboðsleiðin er erfið að mörgu leyti. Það er erfitt að snúa til baka í þessu kerfi. Ef við ætlum t.d. að fara að bjóða út allar aflaheimildir hvernig ætlum við að endurgreiða útgerðinni sem á þegar þær aflaheimildir sem eru í dag? Hvernig ætlum við að hafa það ef við ætlum að miða við ákveðið hámark sem hefur verið úthlutað? Hvað gerist þá þegar þarf að skerða þá úthlutun eins og við höfum séð í þorski 2007–2008, sem fór niður í 130 þús. tonn og er núna í 244 þús. tonnum? Á þá að borga bætur ef útboðið fer niður fyrir eitthvað ákveðið? Það eru margar mjög erfiðar hliðar sem þarf að leysa í þessu stóra máli. Þess vegna er þetta nánast hættulegt í því annars ágæta kerfi sem við búum við, sem er auðvitað eins og öll góð kerfi: Kannski eru mestu kostir kerfisins jafnframt mestu gallarnir. Þannig er það í fiskveiðistjórnarkerfinu. Það eru ákveðnir gallar í framsalinu en framsal er mikilvægasti þáttur kvótakerfisins.

Hér var bent á margar leiðir og hæstv. flutningsmaður nefndi stóru sáttanefndina sem var einmitt að störfum í þinginu og Samfylkingin leiddi á sínum tíma, þar náðist víðtæk sátt milli allra aðila, en ríkisstjórn Samfylkingarinnar tók þá ákvörðun að fara ekki að þeirri sátt. Það var auðvitað mjög slæmt líka á þeim tíma.

Þannig að ég segi: Minn hugur stendur til þess að við hefðum þrek til að taka upp fiskveiðistjórnarkerfið, fara í gegnum það, í stað þess að vera að taka út eina og eina tegund og gera einhverjar sérstakar undanþágur eða bragarbót á henni. Ég held að það muni ekki verða okkur til góðs. Sporin hræða. Við sjáum hvernig Færeyingar hafa farið út úr þessu. Þeir hafa lent í ömurlegri stöðu. Við skulum læra af því.