146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum, en flutningsmenn auk þess sem hér stendur eru hv. þm. Brynjar Níelsson og Haraldur Benediktsson.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði. Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 31. maí 2017 og lokaskýrslu eigi síðar en 10. október 2017.

Í áfangaskýrslu verði úttekt á eignum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila, þar á meðal jörðum og öðrum fasteignum og beinum og óbeinum eignarhlutum í fyrirtækjum, hvort sem er í formi hluta- eða stofnfjár eða með öðrum hætti. Sérstaklega verði tilgreind fyrirtæki sem eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu ríkissjóðs eða annarra ríkisaðila.

Í lokaskýrslu verði:

a. verðmat á eignum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila,

b. mat á kostum og göllum þess að selja, að hluta eða að öllu leyti, hluti í einstökum fyrirtækjum,

c. tímasettar tillögur um sölu ríkiseigna með mati á áhrifum sölu á þróun skulda og vaxtagreiðslna ríkissjóðs,

d. áætlun um þörf á fjárfestingum í samfélagslegum innviðum, sérstaklega í heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfum,

e. mat á möguleikum ríkisins til að ráðast í fjárfestingar í innviðum án skuldsetningar, svo sem með skatttekjum, lækkun vaxtakostnaðar með niðurgreiðslu skulda og/eða tekjum af sölu eigna,

f. mat á því hvort skynsamlegt sé að fjármagna innviðafjárfestingar, að hluta eða öllu leyti, með samstarfsfjármögnun opinberra aðila og einkaaðila, og

g. úttekt á efnahagslegum áhrifum af lækkun skulda ríkissjóðs og sölu ríkiseigna.

Í vinnu sinni fái nefndin fullan aðgang að nauðsynlegum gögnum opinberra aðila.“

Frú forseti. Þetta er tillagan. Í greinargerð er vakin athygli á því að fjármagnskostnaður ríkissjóðs á árunum 2009–2015 hafi numið rétt um 526 milljörðum kr. og er það á verðlagi hvers árs. Þetta jafngildir því að hver fjögurra manna fjölskylda hafi þurft að bera 6,3 milljónir, við getum haft það í formi hærri skatta eða lakari þjónustu ríkisins o.s.frv. Það er merkilegt að árið 2015 nam fjármagnskostnaður ríkissjóðs rétt um 60% af nettótekjuskattstekjum ríkisins. Það er því mikið hagsmunamál fyrir almenning að við náum tökum á skuldum og vaxtagreiðslum ríkisins þegar sex af hverjum tíu krónum sem koma inn í ríkiskassann af tekjuskatti einstaklinga fara í raun til þess að greiða vexti. Ég hygg að þingheimur allur geti verið sammála um það að hér er stórt verkefni sem við þurfum að vinna að.

Þó að menn hafi náð ágætum árangri í ríkisfjármálum er líka ljóst að það er mikið verk óunnið, sérstaklega á skuldahlið ríkisins. Við þurfum að bera gæfu til þess að eiga hreinskiptar umræður um stöðu ríkissjóðs, hvernig hægt er að lækka skuldirnar og draga þannig úr lamandi vaxtagreiðslum. Til þess að við náum einhverju árangri í þeirri umræðu og sú umræða geti orðið málefnaleg og án þess að vera í stíl upphrópana, þá held ég að sé nauðsynlegt að við fáum allar upplýsingar upp á borðið um eignir ríkisins, hverju nafni sem nefnist og um skuldir ríkisins. Ég held að það sé mikilvægt þannig að við getum áttað okkur á því hvort og þá hvaða eignir sem eru í höndum ríkisins sé rétt að selja. Við vitum það öll að margar eignir í höndum ríkisins verða aldrei seldar og mæla engin skynsemis- eða réttlætisrök fyrir því.

Til að draga fram upplýsingar af þessu tagi er lagt til að fengin verði nefnd sérfræðinga til að kortleggja eignir og leggja mat á verðmæti þeirra og búa til einhvers konar langtímaáætlun um hugsanlega sölu ríkiseigna. Það er t.d. merkilegt að hafa í huga að ríkissjóður er sjálfsagt með 450 milljarða eða svo bundna í bankakerfinu á sama tíma og við þurfum að sætta okkur við það að greiða einna mest af öllum þjóðum í Evrópu þegar kemur að vöxtum. Spurningin er auðvitað hvernig við nýtum eignir ríkisins og hvort skynsamlegt sé m.a. að minnka með verulegum hætti eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það eru ýmsar jarðir o.s.frv., og eignarhlutir í öðrum fyrirtækjum sem ríkið fer með. En okkur vantar heildaryfirsýnina. Við þurfum að fá mat á því hvert verðmætið er og hvort raunverulega sé skynsamlegt að selja viðkomandi eignir og þá líka hvenær. Um leið þurfum við að reyna að ná yfirliti yfir það verkefni, sem er gríðarlegt, sem er innviðafjárfesting, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, í skólakerfinu o.s.frv. Vil ég vitna til þess að það er mat sérfræðinga, m.a. Gamma, að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum sé um 500 milljarðar. Það eru syndir okkar frá fortíðinni. Það vantar 500 milljarða í þessa málaflokka.

Það sem meira er er að fjárfestingarþörfin á næstu tíu árum til þess að halda við innviðunum og til þess að byggja ofan á þá eins og við þurfum að gera er líklegast svipuð fjárhæð. Það er því mikið verk fram undan. Við þurfum að reyna að draga saman sem heildstæðasta mynd þannig að við getum þá a.m.k. skipst á skoðunum og tekist á um verkefnin, hvort heldur um hugsanlega sölu eða hvernig við ætlum að forgangsraða þegar kemur að nauðsynlegum innviðum o.s.frv. En ég hygg samt að við séum a.m.k. flest sammála um það að við eigum að vinna að því með öllum skynsamlegum hætti að minnka skuldir ríkisins, draga úr vaxtakostnaði sem er þriðji stærsti útgjaldaliðurn ríkissjóðs sem hefur lamandi áhrif á getu hans til að sinna þeim verkefnum sem við erum sammála um að ríkissjóður eigi að sinna og sem leiðir auðvitað líka til þess að það eru ekki sömu möguleikar og annars til þess að létta t.d. álögum af almennu launafólki.