146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir framsöguna og verð að lýsa því yfir að ég er sammála honum að það fer vel á því að koma sölu ríkiseigna í fastara ferli og hafa það ferli opnara, gagnsærra og faglegra og einmitt um nauðsyn þess sem ég held að við getum öll sammælst um að lækka skuldir ríkissjóðs o.s.frv.

Mig langar til þess að spyrja um afstöðu þingmannsins til þess að í staðinn fyrir þriggja manna nefnd skipaða af sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði, færi betur á því að skipa nefnd með aðkomu fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi, jafnvel aðkomu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, þar sem flutningsmenn leggja áherslu á að lækkun skuldasöfnunar ríkissjóðs sé eitt af brýnustu verkefnum samtímans.

Ég velti því líka fyrir mér hvort ekki sé nokkuð bratt hjá flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar að ætla nefndinni að skila lokaskýrslu um svo viðamikið málefni sem sala ríkiseigna er strax eftir rúma átta mánuði. Liggur eitthvað á? Þarf ekki einmitt að vanda til verka?

Þetta langar mig að heyra til að byrja með hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Svo er ég með fleiri spurningar handa honum í næsta andsvari.