148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almannatryggingar.

97. mál
[17:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum frumvarpsins. Ég styð það heils hugar. Ég vil koma upp og ræða einn hluta af því. Þarna erum við að tala um börn sem hafa misst annan framfæranda sinn. Oft vill þetta gerast í slysum, t.d. umferðarslysum, vinnuslysum eða eitthvað svoleiðis. Það sem er sorglegast við það er að skaðabótalögin taka mjög illa á slíkum málum og bæta þetta mjög lítið, eiginlega ekki neitt. Ég myndi segja að það væri það næsta sem við þurfum að taka á. En meðan ástandið er svona slæmt í þeim málum styð ég heils hugar að þetta frumvarpi nái í gegn og mun fylgja því eftir í velferðarnefnd. Eins og ég segi er ólíðandi að þannig skuli vera ástatt á Íslandi að ef einhver lendir í áföllum sé það ávísun á að viðkomandi þurfi að lifa í fátækt. Það er ekki nóg að fólk sé að takast á við sorg og erfiðleika heldur er einhvern veginn innbyggt í kerfið að fólk eigi að bjarga sér þótt það geti ekki fjárhagslega. Við vitum að það er þannig á Íslandi að um leið og önnur fyrirvinnan hverfur fara hlutirnir allir úr skorðum. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt mál og ég styð það heils hugar.