148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almannatryggingar.

97. mál
[17:53]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem flutningsmaður þess, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, leggur hér fram, er tilraun til að komast til móts við þá erfiðleika sem hún benti á, sem allt að 900 börn á Íslandi frá 0–18 ára sem hafa misst foreldra eiga við að etja. Slík mál ber að styðja og eru að fullu í samræmi við grunnstefnu Framsóknarflokksins um jöfn tækifæri.

Hv. þingmaður kom inn á að þetta væri eitt mögulegt dæmi af mörgum um gat hvað varðar þennan málaflokk. Mig langar að nefna annað atriði.

Frumvarpið kemur ekki inn á þann vanda sem 10. gr. reglugerðar um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærslulaga getur skapað. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

„Tryggingastofnun skal greiða ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ef ungmennið leggur fram úrskurð sýslumanns eða samning staðfestan af honum um að foreldri þess skuli greiða því framlag til menntunar eða starfsþjálfunar. Með umsókn skal fylgja vottorð um skólavist eða starfsþjálfun.“

Frú forseti. Slík grein tekur einmitt ekki á þeim vanda þegar báðir foreldrar geta ekki samkvæmt úrskurði sýslumanns greitt slíkan menntunarlífeyri. Dæmi: Annað foreldri er fallið frá og hitt er t.d. öryrki eða það tekjulágt að slíkt nægir ekki til greiðslu menntunarmeðlags. Nú geta báðir foreldrar verið öryrkjar eða tekjulágir og slíkt á ekki, frú forseti, að skerða möguleika ungmennis til skólanáms á viðkvæmum mótunarárum þess.