149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mannréttindabarátta nútímans er ekki síst kvennabarátta. Margt hefur áunnist en margt er óunnið. Við megum aldrei sofna á verðinum og við megum aldrei sætta okkur við kynbundinn launamun, kynbundinn tröppugang í atvinnulífinu og kynbundið ofbeldi.

Við megum aldrei sætta okkur við málamiðlanir þegar kemur að grundvallarmannréttindum. Við þurfum að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku hins opinbera en einnig hjá einkaaðilum. 90% þeirra sem eiga peninga og stjórna peningum á Íslandi eru karlar. 75% þeirra sem eru í stjórnum íslenskra fyrirtækja eru karlar og 80% framkvæmdastjóra landsins eru karlar. Þessu þarf að breyta. Við megum hins vegar aldrei ætlast til þess að þessi mál leysist af sjálfu sér eða þau leysist einfaldlega með tímanum.

Herra forseti. Það er ekki nóg að Vigdís varð forseti. Við þurfum stöðugar aðgerðir. Við þurfum kynjakvóta, jafnlaunavottun, öfluga umræðu og lagabreytingar og við þurfum peninga í málin og í málaflokkana. Við þurfum að endurmeta frá grunni mat samfélagsins á störfum kvenna þegar kemur að launum, hvort sem það er innan kennarastéttarinnar, velferðarkerfisins eða einfaldlega hjá lágtekjuhópum kvenna.

Við þurfum stórátak gegn ofbeldi. Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þinginu núna er einmitt að tryggja að þolendur í heimilis- og kynferðisofbeldismálum fái gjafsókn frá ríkinu. Við þurfum stöðugar forvarnir og fræðslu, við þurfum að bæta fæðingarorlofið, ekki síst hjá þeim konum sem eru í námi eða utan atvinnu og við þurfum að stytta vinnuvikuna.

Herra forseti. Ljúkum þessari baráttu með algjörum sigri og fullu jafnrétti í orði sem og á borði.