150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

lyfjalög.

266. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum. Ég lagði það áður fram á 149. löggjafarþingi og efnislega fjallar það um að heimila að Lyfjastofnun veiti undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga þannig að mögulegt sé að selja tiltekin lausasölulyf í almennri verslun.

Fólk hefur kvartað yfir því að geta t.d. ekki nálgast á einfaldan hátt ofnæmislyf þegar apótek úti á landi eru lokuð sem eru auðvitað oft með takmarkaðan afgreiðslutíma. Við þekkjum það frá öðrum Norðurlöndum að þar eru þessi mál miklu frjálsari. Nágrannar okkar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi búa við mun meira frjálsræði í lyfsölu en við Íslendingar. Sala á lausasölulyfjum var leyfð í almennum verslunum í Danmörku 2001, Noregi 2003 og Svíþjóð 2009. Lausasölulyf eru lyf sem í dag er hægt að kaupa í apótekum án lyfseðils og þau eru afhent þar. Það er nú þegar heimilt að selja eina tegund af slíkum lyfjum í verslunum, nikótínlyf eru ekki lyfseðilsskyld. Lyfjastofnun ákveður hvaða lyf má selja í lausasölu og hún veitir slíka heimild í dag að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Ég legg til í frumvarpinu að lausasölulyf verði flokkuð í tvo flokka, annars vegar lyf sem aðeins verða seld í apótekum og hins vegar almenn lausasölulyf sem væri heimilt að selja bæði í apótekum og almennum verslunum, svo sem væg verkjalyf og ofnæmislyf, en það er í höndum Lyfjastofnunar að meta.

Þá er jafnframt það efnisatriði í frumvarpinu að Lyfjastofnun ákveði og birti á vefsíðu stofnunarinnar hvaða lyf verði hægt að selja á grundvelli undanþágunnar sem ég legg hér til og að þeir sem fái þá undanþágu hafi ákveðnum skyldum að gegna til að tryggja að Lyfjastofnun fái upplýsingar um magn þeirra lyfja sem er selt og að neytendur fái nauðsynlegar upplýsingar. Það á að setja inn í 24. gr.

Síðan þarf ráðherra að setja reglugerð til að halda utan um þetta allt saman og útfæra reglurnar nánar. Þetta frumvarp hefur það markmið að einfalda aðgengi íbúa þessa lands að lausasölulyfjum. Það er tiltölulega einfalt að breyta því þannig að Lyfjastofnun fái heimild til að veita almennum verslunum undanþágu til að selja lyfin. Ég tel að þetta auki samkeppni og komi til með að lækka verð til neytenda. Ég vonast til þess að málinu verði vel tekið á Alþingi og óska eftir að því verði vísað til velferðarnefndar.