150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

lyfjalög.

266. mál
[18:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt í mörgu. Ég lít ekki á það sem sérstakt „frelsismóment“ — fyrirgefið enskuslettuna, forseti — að hafa tækifæri til að kaupa lausasölulyf þegar manni dettur í hug. Ég er náttúrlega, eins og ég sagði áðan, ósköp litaður af því að hafa séð allt of margar aukaverkanir af allt of mörgum lyfjum í gegnum tíðina og vil þess vegna miklu frekar fara fetið í því að rýmka um þessar reglur. En ég ítreka aftur sérstaklega að völ sé á upplýsingu, frekari fræðslu og þjónustu þegar menn kaupa þessi lyf. Jafnvel þó að við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir treystum fólki megum við heldur ekki breyta löggjöf eða reglum þannig að við séum beinlínis að útsetja fólk fyrir hættu sem það kynni ekki að lenda í ef við breyttum ekki reglunum. Ég er a.m.k. þar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að muna að þegar fólk er kannski komið á fjögur eða fimm lyfseðilsskyld lyf sem það þarf að taka er það þumalputtaregla, a.m.k. hjá flestum þeim sem stunda sjúklinga, að þá sé það ekki spurning um hvort viðkomandi sé með auka- eða milliverkanir heldur miklu fremur hvaða auka- eða milliverkanir það eru. Þegar einstaklingur sem er í þeirri stöðu fer síðan út í búð og kaupir sér kannski sjötta eða sjöunda lyfið af því að hann er með einhverja verki eða ofnæmiseinkenni eða eitthvað þess háttar, þá skiptir verulegu máli að valið á þeim tíma sé rétt til þess að viðkomandi sé ekki útsettur fyrir þeim hættum sem auka- og milliverkanir geta valdið.