151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

útflutningur á óunnum fiski.

[14:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún kemur reglulega upp, sú fyrirspurn, og umræðan um útflutning á óunnum fiski frá Íslandi. Þau sjónarmið sem heyrast í umræðunni eiga allan rétt á sér. Við höfum hins vegar langa hefð fyrir því hér á Íslandi að afla okkur tekna með því að fá sem hæst verð fyrir sjávarafurðir hverju sinni. Við þekkjum það í gegnum tíðina að siglingar með fisk hafa verið mjög miklar á erlenda markaði. Ég þekki það sjálfur af eigin reynslu frá því að ég var til sjós. Ég held að þetta sé bara í öðru formi núna. Það kann vel að vera að mönnum bregði við þegar þetta tekur kipp, eins og virðist vera að gera núna um þessar mundir, og þá er sjálfsagt mál að ræða mögulegar leiðir til þess að auka við þá vinnslu sem á sér stað innan okkar vébanda, ríkisins.

Við sjáum hins vegar vel hvernig sjávarútvegurinn og fiskvinnslan hefur svarað þessu. Hún hefur svarað þessu með aukinni tæknivæðingu, aukinni þekkingu, betri tæknigetu og sótt fram á erlendum mörkuðum á þeim grunni. Við sjáum þess stað í því sem byggt er upp núna í íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum. Það er flókið að reisa skorður við þessu. Ég hef kallað eftir því. Ef hv. þingmaður hefur hugmyndir í þá veru með hvaða hætti það verði best gert er sjálfsagt mál að taka það til skoðunar. En ég legg áherslu á að undir liggur sömuleiðis að sjómenn gera kröfur um að fá sem hæst verð fyrir aflann. Og ef við ætlum að hygla einum hópi umfram annan þá verðum við að vera tilbúin í þá umræðu sömuleiðis. En ég lýsi mig reiðubúinn til að ræða hvaða hugmyndir sem er til að auka og styðja við frekari fullvinnslu afla hér á Íslandi. Tvímælalaust.