151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

23. mál
[16:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Bara svo það sé alveg skýrt: Ég var rosalega ánægður með þetta mál þegar það kom inn í utanríkismálanefnd á sínum tíma, ég er mjög ánægður með þetta frumvarp vegna þess að það tekur einmitt á því vandamáli sem ég hef sjálfur lent í, og ég veit að margir aðrir hafa lent í, að vera að reyna að stunda viðskipti við evrópska aðila í gegnum netið og svo kemur í ljós að þeir eru ekki tilbúnir til að veita þjónustu til Íslands vegna þess að þeir líta á okkur sem einhvern útnára sem skiptir engu máli. Þetta er liður í því að koma í veg fyrir það og það er rétt og eðlilegt að gera það innan Evrópska efnahagssvæðisins og helst úti um allan heim. En við komumst þangað síðar.

Það sem ég var að reyna að fjalla um í ræðu minni er einmitt að þó að það sem þetta mál snýst um skipti máli þá snýst þetta kannski ekki nákvæmlega um það sem nafnið á málinu gefur til kynna. Verið er að segja að t.d. megi ekki takmarka aðgang að netskilflötum eins og er fjallað um í frumvarpinu. En það er kannski aðeins vandasamara að fjalla í fyrsta lagi um það hvað netskilflötur er, það er eitthvað sem þarf helst tvo til þrjá tæknimenn til þess að rífast um. Auk þess er hægt að brengla þessar hugmyndir um aðgang að netskilflötum með svo ótrúlega fjölbreyttum hætti og mér finnst alveg ástæða til þess að við sem þing reynum að fjalla um það og finna einhverja leið til að fjarlægja þessa flækju. Ég var svo sem ekki að reyna að flækja málið en ég var frekar að reyna að benda á það að sá þáttur sem ég var að fjalla um er í eðli sínu alveg vandræðalega flókinn.