151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[20:48]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við ræðum stjórnarfrumvarp um fæðingar- og foreldraorlof sem kveður á um 12 mánaða orlof. Í því er lögð til skipting þar sem hvort foreldri um sig fær sex mánuði en heimilt er að framselja einn mánuð til hins foreldrisins.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst dapurlegt að ekki hafi verið hægt að gera betur en raun ber vitni fyrst farið var yfir höfuð í þessa löngu tímabæru aðgerð að efla fæðingarorlofskerfið og lengja fæðingarorlof. Eins og svo oft áður þurfa stjórnmálin að vera a.m.k. áratug ef ekki tveimur áratugum á eftir tíðarandanum. Ég fæ ekki betur séð en að það sé einbeittur vilji stjórnvalda að vera hér ekki í takt við tímann og hlusta ekki á ákall samfélagsins í þessu mikilvæga velferðarmáli. Það sést á því að þrátt fyrir að 85% umsagna sem bárust um frumvarpið kölluðu eftir auknum sveigjanleika í því að skipta orlofinu var ekki orðið við því. Þetta er gömul saga og ný í velferðarríkinu Íslandi að ríkisvaldið, í samvinnu við atvinnulífið, vilji stýra beint eða óbeint ákvörðunartöku fjölskyldna á þennan hátt. Þetta þarf að breytast og við höfum tækifæri til þess að gera það í þessu máli nú á komandi vikum. Rökin sem gefin hafa verið fyrir þessari niðurstöðu eru þau að jafnrétti og réttur barns til samvista við báða foreldra hafi vegið þyngst. Formaður nefndarinnar um endurskoðun laganna sagði m.a.:

„Í okkar samfélagi á það ekki að vera í boði að segja sig frá uppeldi barnanna sinna og löggjafinn á ekki að ýta undir það eða gefa tækifæri til þess.“

Forseti. Skoðum þetta aðeins. Telur löggjafinn í fyrsta lagi það endilega vera í hag barns að foreldri sem hefur lítinn eða engan áhuga á því að taka þátt í uppeldi þess sé í gegnum löggjöf um úthlutun orlofs þvingað til þess? Ég er ekki alveg sannfærð um að svo sé. Í öðru lagi velti ég því fyrir mér hvers vegna löggjafinn lítur á það sem hlutverk sitt að standa hér á ákveðinn hátt í uppeldi á uppeldisaðilanum. Það kallast að mínu mati á góðri íslensku forræðishyggja. Því að hafi stjórnvöld áhyggjur af tengslamyndun foreldra og barna mættu þau jafnvel skoða að veita foreldrum meiri stuðning meðan á meðgöngu stendur og strax og eftir allt öðrum leiðum og í samvinnu og samráði við fagaðila í þessum efnum. Sú sem hér stendur þykist vera viss um að þetta sé a.m.k. ekki leiðin til að ná því markmiði. Það er auðvitað afskaplega ánægjulegt að við séum komin á þann stað að við getum gefið foreldrum meira svigrúm til að sinna börnum sínum og í fyrsta sinn erum við komin í 12 mánaða fæðingarorlof. En betur má ef duga skal. Og auðvitað á ákvörðunartakan að vera út frá þörfum barnsins, fyrst og fremst og síðast, enda býður litróf lífsins upp á ólíkar persónulegar aðstæður hvers barns og foreldra og fjölskyldu fyrir sig.

Nú tala ég af töluverðri reynslu, herra forseti, þar sem ég er sjálf fjögurra barna móðir með börn á aldrinum sjö ára upp í tvítugt og hef því fjórum sinnum farið í þessa vegferð sem við ræðum hér í dag. Þá vil ég bæta öðrum vinkli í þessa umræðu út frá minni eigin reynslu. Hann er sá að það geta verið allt aðrar þarfir fyrir fjölskyldu þegar fyrsta barn mætir á svæðið eða þegar annað barn mætir eða þriðja kemur inn í fjölskylduna. Það getur bara verið allt öðruvísi landslag og allt annað hentað eftir því hvernig málin standa í fjölskyldunni á hverjum tíma fyrir sig. Auðvitað eiga þeir hagsmunaaðilar sem aðstæður hafa mest áhrif á að fá að stýra því hvernig fæðingarorlofstímanum er ráðstafað. Það er eðlilegt. Auðvitað er eðlilegast að setja ákvörðun varðandi skiptingu fæðingarorlofs alfarið í hendur foreldra. Það eru úrelt sjónarmið sem ráða hér för, úrelt sjónarmið þar sem ríkisvaldið lítur á sig á ákveðinn hátt sem drottnandi aðila og sækist eftir því að miðstýra mjög persónulegri ákvörðunartöku innan veggja heimilisins.

Því spyr ég, herra forseti: Hvernig væri að foreldrum væri einfaldlega í sjálfsvald sett hvernig þau ráðstafa þeim takmarkaða tíma sem þau fá frá vinnu sinni til þess að annast sitt eigið barn í upphafi lífs þess? Foreldrum er alveg treystandi fyrir því, enda taka foreldrar mýmargar og ólíkar ákvarðanir fyrir börn sín á hverjum einasta degi. Það myndi ekki allt fara hér á hliðina þó að fæðingarorlofstímanum væri ráðstafað af foreldrunum sjálfum og eftir þeirra eigin höfði.

Forseti. Samsetning nefndarinnar sem fjallaði um málið gefur auðvitað til kynna hver niðurstaðan varð. Það voru sérfræðingar í málefnum vinnumarkaðarins sem skipuðu nefndina. Því spyr ég: Hvers vegna átti enginn sérfræðingur í málefnum sem varðar þroska ungbarna eða meðgöngu og fæðingu sæti í nefndinni? Þá ber að geta þess að einhverra hluta vegna var ekki tekið tillit til umsagnar landlæknis og Ljósmæðrafélagsins í vinnslu frumvarpsins. Eins skortir töluvert á gagnsæi í vinnu nefndarinnar sjálfrar. Að því er ég best veit er ekki talað um neinar gestakomur í fundargerðum. Því myndi ég vilja beina því til ráðherra hvort ekki væri eðlilegt að upplýsa um þá sem mættu á fund nefndarinnar.

Ráðherra minntist í ræðu sinni á að ekki væri hægt að sníða svona frumvarp að þörfum allra. Þess þá heldur væri rétt að hafa meira svigrúm innan kerfisins til þess að hver og einn, hvert og eitt foreldri, hver og ein fjölskylda fyrir sig gæti sniðið þetta að þörfum sínum, ekki þörfum atvinnulífsins eins og þetta frumvarp ber augljós merki um að vilja gera. Eins sýnir reynslan að skipting orlofs getur verið mjög torveld fyrir innflytjendur. Þar getur t.d. menningarmismunur spilað stóran þátt. Eins getur heilsa foreldris spilað inn í hvernig best er að skipta orlofinu, nú eða heilsa barnsins eða jafnvel einhverjar utanaðkomandi aðstæður. En ég vil ítreka að ég fagna því að nú standi til að lengja foreldra- og fæðingarorlof og auðvitað kemur málið til hv. velferðarnefndar, þar sem ég sit. Ég hlakka til að vinna með frumvarpið og óska því góðs gengis í meðförum þingsins.