151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur beinlínis fram í umsögnum sérfræðinga um heilsu og þroska barna að þau óttast að þessi stífa skipting, þetta litla svigrúm, muni geta haft neikvæð áhrif á þroska og geðheilsu ungbarna og þau undrast að ekki hafi verið haft samráð og þau hafi ekki átt þátt í mótun þessara tillagna. Þannig að spurningin er: Eru ekki fleiri í þessari jöfnu en karlar og konur á vinnumarkaði? Eru ekki börn í þessari jöfnu líka? Þarf ekki að huga að því að gefa aðeins meira svigrúm gagnvart báðum foreldrum án þess að við ætlum að gefa upp á bátinn sjálfstæðan rétt hvors foreldris fyrir sig? Gæti það ekki verið til bóta fyrir börnin, sem eru vissulega líka að ryðja sér til rúms í réttindabaráttu og hafa ekki alltaf notið sannmælis sem einstaklingar sem bera sjálfstæðan rétt til að þroskast í heilnæmu og góðu umhverfi? Þannig að ég spyr hv. þingmann aftur hvort ekki megi skoða aðeins aukinn sveigjanleika með þeim formerkjum að áfram verði sjálfstæður réttur foreldra þriðjungur hvor, í ljósi þeirrar viðhorfsbreytingar sem hv. þingmaður telur sig hafa upplifað og í ljósi viðvörunarorða sérfræðinga eins og landlæknisembættisins og Ljósmæðrafélagsins um þennan ósveigjanleika, og endurskoða þessa stífu skiptingu.