Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir hennar orð. Við erum í grunninn öll sammála um nauðsynina, hún liggur alveg fyrir. Það þarf að styrkja dreifikerfið á Suðurnesjum en ekki bara þar, líka víðs vegar um landið. Ég þekki þetta ferli nokkuð vel. Ég er búinn að vera þátttakandi í þessu ferli í mörg ár. Mér finnst svolítið sérstakt að segja: Málið er svo langt komið. Málið er svona langt komið af því að menn fóru áfram með það án þess að vera búnir að byggja undirstöðurnar undir það eins og hefði átt að gera. Til að halda áfram átti að klára samkomulagið við sveitarfélögin á svæðinu og það hefur ekkert gerst. Þannig að það að menn séu komnir út í miðja á er bara af því að þeir ruku af stað út í ána. Þeir kláruðu ekki það sem þurfti að gera áður en þeir fóru af stað. Mér finnst því rangt farið að í þessu máli. Ég er bara þar. Ég skil þetta: Mig vantar Suðurnesjalínu 2 en ég vil ekki fá hana með þessum hætti.