153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

hreinsun Heiðarfjalls.

[10:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Stutta svarið er að ég hef verið kýrskýr og get sagt það hér algjörlega skýrt að kjarnavopn verða ekki geymd á Íslandi. Ísland er friðlýst fyrir kjarnavopnum. Það segir skýrt í okkar þjóðaröryggisstefnu. Það er algjörlega upplýst afstaða og upplýst skilyrði sem okkar vina- og bandalagsþjóðir vita um og eru upplýstar um og fara ekki gegn. Það er okkar stefna þegar kemur að kjarnavopnum og hún er skýr. Ég er skýr með það og það eru engar breytingar áformaðar hvað það varðar. Við höfum auðvitað sömuleiðis á Íslandi, og íslensk stjórnvöld, talað mjög skýrt fyrir almennri afvopnun á því sviði. Því miður er það ekki undir okkur komið einum og sér enda sjáum við núna mjög hættulega orðræðu. Hvað sem verður þar þá erum við ekki að fara að breyta um stefnu hvað það varðar og segir skýrt í okkar þjóðaröryggisstefnu að íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og einmitt í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Þannig að þetta er af okkar hálfu alveg skýrt.