153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

framlög til heilbrigðiskerfisins.

[11:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð nú að lýsa vonbrigðum mínum með þetta svar. Framlag jókst vissulega á tímum heimsfaraldurs en við höfum árum saman verið langt undir vergri landsframleiðslu þegar kemur að framlögum til heilbrigðiskerfisins. Við erum það enn þá. Við erum langt undir því sem þekkist í samanburðarríkjum OECD. Það er ekki hægt að fela sig á bak við nauðsynlegt framlag sem þurfti að leggja inn í þetta í heimsfaraldri og ég verð að segja að það er grátlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra stæra sig af framlögum til geðheilbrigðismála sem eru auðvitað skammarlega lág miðað við umfang málaflokksins í heilbrigðismálum almennt. Það er talað um að um 5% af framlögum til heilbrigðismála fari í geðheilbrigðismál en málaflokkurinn er um 25% af heildinni. (Forseti hringir.) Það virðist vera sem ríkisstjórnin telji að geðheilbrigðismálin reddist bara (Forseti hringir.) á sama tíma og við erum að sjá andlátum vegna sjálfsvíga fjölga ár frá ári á vakt þessarar ríkisstjórnar sem skilar auðu í þessum málum (Forseti hringir.) og tímir ekki einu sinni að fjármagna nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem þó hefur verið samþykkt hér á Alþingi að gera.

(Forseti (LínS): Ræðutími í síðari fyrirspurn er ein mínúta, ekki ein og hálf mínúta.)