Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið að eiga umræðu á þinginu um alvarlega stöðu mannréttinda í Íran. Hin kúrdíska, 22 ára Mahsa Amini þurfti að gjalda með lífi sínu fyrir það eitt að hún klæddi sig ekki í samræmi við kröfur írönsku siðferðislögreglunnar svokallaðrar. Dauði hennar er átakanleg áminning um þá kúgun sem konur þurfa að upplifa í Íran. Dauði Mahsa hefur hrundið af stað öldu mótmæla sem yfirvöld hafa reynt að berja niður af fádæma hörku. Síðast í gær sáum við á miðlum, þegar 40 dagar voru liðnir frá dauða Mahsa, að þúsundir komu saman við gröf hennar til að halda minningunni á lofti og mótmæla því ofríki sem konur í Íran hafa þurft að búa við. Varðhundar klerkastjórnarinnar svöruðu sem fyrr með enn meira ofbeldi.

Enn og aftur virða írönsk stjórnvöld réttinn til lífs, tjáningarfrelsis og friðsamlegra mótmæla að vettugi þvert á allar alþjóðlegar skuldbindingar. Tugir mótmælenda hafa verið drepnir. Heimildir skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna benda jafnframt til þess að á þriðja tug barna hafi verið drepinn, eins og hv. þingmaður kom inn á, og enn fleiri hafi særst.

Hrottaleg viðbrögð við mótmælum í háskólum um land allt er mikið áhyggjuefni. Ég verð að segja eins og hv. þingmaður, bæði sem ung kona og manneskja, að þá er maður að sjálfsögðu bæði dapur og reiður yfir ofsafenginni atlögu íranskra stjórnvalda gegn friðsömum mótmælendum. Að sama skapi er hugrekki þeirra kvenna sem láta ekki bugast heldur standa keikar frammi fyrir kúgurum sínum okkur öllum innblástur og ætti að vera það. Það er skylda okkar að sýna írönskum konum og öðrum borgurum landsins samstöðu og nota þá rödd sem Ísland hefur til að sýna þeim stuðning og tala máli þeirra á alþjóðavettvangi.

Á vettvangi alþjóðastofnana ber fyrst að nefna að Ísland er í forystu fyrir árlegri ályktun um ástand mannréttinda í Íran á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna til að tryggja áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa um málefni Írans. Sá er meðal tíu sérstakra fulltrúa mannréttindaráðsins sem fordæmt hafa aðgerðir íranskra stjórnvalda og kallað eftir óháðri rannsókn og að þau sem beri ábyrgð verði sótt til saka. Við erum líka meðflytjendur árlegrar ályktunar um mannréttindamál í Íran sem lögð verður fram í haust á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Síðast í gær fordæmdi Ísland ofbeldi íranskra stjórnvalda gagnvart mótmælendum á vettvangi mannréttindanefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og sjálf tók ég upp mál Mahsa Amini í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 24. september sl. Í síðustu lotu mannréttindaráðsins fordæmdi Ísland jafnframt framgöngu Írans og tók undir sameiginlega yfirlýsingu nokkurra ríkja þar sem skorað var á Íran að standa fyrir óháðri rannsókn á dauða Amini og virða grundvallarmannréttindi fólks.

Ísland hefur einnig talað fyrir því að kalla eigi eftir aukafundi um mannréttindi í Íran á vettvangi ráðsins. Nú stendur yfir umræða meðal líkt þenkjandi ríkja um hvort náist samstaða um að setja á laggirnar einhvers konar rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem geti lagt grunn að viðurlögum vegna þeirrar víðtæku og alvarlegu mannréttindabrota sem nú eiga sér stað þar í landi. Við höfum líka framfylgt þvingunaraðgerðum sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til gagnvart Íran. Í síðustu viku var bætt við listann 11 einstaklingum og fjórum stofnunum, þar á meðal siðferðislögreglu og almennri lögreglu, eins og hv. þingmaður nefndi, sem ýmist eru talin bera ábyrgð á dauða Mahsa Amini eða ofbeldi gegn friðsömum mótmælendum í landinu. Aðgerðirnar sem nú hefur verið gripið til felast einkum í frystingu eigna og ferðabanni til Evrópu. Í kjölfar áhrifaríks fundar í síðustu viku þar sem við hlýddum á raddir frá Íran, höfum við, kvenráðherrar 12 ríkja, sömuleiðis sent frá okkur yfirlýsingu til stuðnings írönskum konum og baráttufólki fyrir mannréttindum og átti utanríkisráðherra Kanada frumkvæðið að þessum fundi. Það var svona í viðjum frásagna sem voru auðvitað hryllingur. Maður hugsar til þeirra kvenna sem hafa tapað og látist og þeirra sem, eins og hv. þingmaður nefndi, halda áfram þrátt fyrir hræðsluna og áhættuna. Það var ágætt að finna fyrir því að það hefur áhrif og það er til viðbótar siðferðisleg skylda sem hvílir á kvenkyns leiðtogum, hvers kyns leiðtogar sem það síðan eru, að tala hærra og segja það skýrar og taka höndum saman til að reyna að ná fram frekari breytingum, bæði í gegnum kerfið og með skapandi hugsun.

Afstaða okkar er skýr. Mannréttindabrot í Íran verður að fordæma skilyrðislaust á vettvangi alþjóðastofnana og leggja ríka áherslu á ábyrgð íranskra stjórnvalda. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í samstöðu með konum og öðrum borgurum í Íran.