Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:54]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar vitum hvar við stöndum. Við stöndum fyrir frelsi, við stöndum fyrir jafnrétti, við stöndum með írönskum konum í sinni baráttu. Það voru liðnir 40 dagar frá andláti Mahsa Amini í gær og syrgjendur komu saman til að minnast hennar. Íranar halda venjulega minningarathöfn á 40. degi eftir andlát. Íranskir öryggislögreglumenn skutu byssukúlum og beittu táragasi gegn syrgjendum sem komu saman við gröf hennar. Mótmæli gegn stjórnarhernum brutust út á sama hátt 40 dögum eftir að öryggissveitir drápu Neda Agha-Soltan, ungan íranskan mótmælanda í grænu hreyfingunni árið 2009. Öryggissveitir drápu Soltan í fjölmennustu mótmælum í Íran frá byltingunni 1979.

Í dag er ástandið flókið og erfitt að gera sér grein fyrir framvindu mála. Stjórnmál í Íran hafa vissulega ekki verið frjáls og það er mjög langt síðan þau voru það ef þau hafa einhvern tímann verið það og við vitum raunverulega ekki hvað tekur við. En þessi mótmæli sem hafa verið núna eru mjög mikilvæg og dropinn holar steininn. Þar sem ég er nýkomin af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York vil ég hvetja utanríkisráðherra og aðra fulltrúa Alþingis í alþjóðastarfi til að minna á grundvallarmannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana o.s.frv. Við skulum sameinast um sterka ályktun um málefni Írans á vettvangi Norðurlandaráðsþings í næstu viku til stuðnings stúdentahreyfingum og ungum konum.

Virðulegi forseti. Fordæmum ofbeldisfullar aðgerðir gegn friðsamlegum mótmælum í Íran, fordæmum framgöngu Írans í garð kvenna því að við vitum hvar við stöndum.