Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings o.fl.

89. mál
[15:32]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mörg orð. Ég held nú, svo ég beiti hinu ástkæra, ylhýra máli og afsakaðu, virðulegi forseti, að ég hafi brugðið fyrir mig dönsku hér, það var ekki meiningin. En ég held að „í botn og grunn“ séum ég og hv. þingmaður sammála um að ekki sé mikill sómi að sölu á upprunavottorðum.

Varðandi eitthvert frekara orðaskak um afstöðu og fullveldi og orkupakkann þá ætla ég ekki að fara inn á það hér í stuttu andsvari við hv. þingmann en sest glaður með honum niður hérna í mötuneytinu frammi og við getum rætt það. Mín afstaða í þessum málum er sú að hér erum við rík af grænum orkugjöfum. Þá eigum við að nýta til orkuskipta innan lands. Ég vil að við tryggjum það með því að lögfesta, eins og bent er á í þingsályktunartillögunni, og ég er að lýsa yfir stuðningi við, sem og að setja ákveðna eigendastefnu sem kemur í veg fyrir til að mynda sölu upprunavottorða og notkun á raforkunni í öðrum tilgangi en akkúrat til þess sem hún er framleidd til, til orkuskipta innan lands.