Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings o.fl.

89. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hér upp í lokin til að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þingmönnum Eyjólfi Ármannssyni og Orra Páli Jóhannssyni fyrir þátttökuna í umræðunni um þessa tillögu. Mér finnst hún nefnilega vera mjög upplýsandi um stöðuna sem við erum í og þær ólíku skoðanir sem takast á í þessum sal um orkupakka ESB, alveg örugglega, og EES-samninginn í rauninni og hvað honum hefur fylgt. Við höfum kannski ólíkar skoðanir á því nákvæmlega hversu mikið af góðum málum og framförum hann hefur fært okkur og svo hefur annað komið með. Ég ætla svo sem ekki að fara að ræða það af þessu tilefni núna en mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram, vegna þess að hér hefur verið rætt um eigendastefnu, að það er til nokkuð almenn og stutt eigendastefna stjórnvalda fyrir fyrirtæki í opinberri eigu. Ég vil og mun leggja hér fram aðra tillögu í vetur um að rituð verði eigendastefna sem er miklu sértækari fyrir þau fyrirtæki sem eru undir. Landsvirkjun er eitt þeirra. Það er auðvitað algjörlega á ábyrgð stjórnvalda að setja opinberum fyrirtækjum eigendastefnu. Það er tæki sem við höfum í rauninni ekkert beitt hér á landi, ekkert í líkingu við það sem gert hefur verið í nágrannalöndum okkar. Ég vona að flutningur þessarar tillögu verði til þess að umræðan um þetta mikilvæga mál fari fram í þingnefndunum. Raforkulögin heyra undir atvinnuveganefnd en mér þætti við hæfi að málinu yrði einnig vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég fer ekki ofan af því að raforkuöryggi er þjóðaröryggi og alveg burt séð frá aðild okkar að EES þá verðum við að skilgreina alþjónustuna og við verðum að setja hagsmuni heimila og venjulegra fyrirtækja í forgang þegar kemur að raforkuöryggi . Það gerum við með lagasetningu og hana þarf að undirbúa í vetur.

Að lokum: Það ber svo við að orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, hefur talað mjög skýrt opinberlega um þessi mál. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir það vegna þess að það er mjög mikilvægt að fólk sem gegnir mikilvægum opinberum embættum, stýrir stofnunum á borð við Orkumálastofnun, hægt er að nefna fleiri, tali með skýrum hætti á opinberum vettvangi um skyldur okkar í samfélaginu og hvað þarf að gera. Það hefur orkumálastjóri gert og mér finnst að það hafi upplýst þessa umræðu í gegnum síðustu mánuði og misseri og ég vona að okkur takist hér á hinu háa Alþingi að gera slíkt hið sama, að lýsa í gegnum þessi efnisatriði, fara í gegnum þau. Auðvitað þurfum við og munum takast á um sum þeirra en ég held að við hljótum öll að vera sammála um að við þurfum að koma því þannig fyrir í íslenskri löggjöf að alþjónustan sé tryggð, að raforkuöryggi almennings, hvar sem fólk býr á landinu, sé tryggt og það er í okkar höndum að gera það.