Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:12]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þetta mál sem réttilega var tekið fyrir í atvinnuveganefnd þingsins hér á síðasta þingi þar sem ég sit sem formaður. Það er rétt sem þingmaðurinn segir að það barst gríðarlegur fjöldi umsagna og var mjög áhugavert að lesa þær og fara yfir þær allar. Þær voru misjafnar — það er alveg rétt — þó að margar hafi reyndar verið mjög einsleitar og svipaður texti. Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir eru um þetta mál eins og mörg önnur.

Í byrjun vil ég segja að ég er nú mikill dýraverndunarsinni, ólst upp í Skagafirði með helstu stóðhesta landsins í bakgarðinum og lék mér samhliða þeim. Því held ég að dýravernd sé alveg gríðarlega mikilvægt mál. Ég velti fyrir mér, af því að hv. þingmaður kom inn á að það væri víða pottur brotinn í þessum málum, ekki bara varðandi blóðmerar heldur dýravernd yfir höfuð og talaði um lélegt regluverk og lélega eftirfylgni með því, hvort það væri kannski nær að byrja þar og taka þá reglugerð til skoðunar ef menn telja að pottur sé brotinn, sem því miður eru allt of mörg dæmi um?

Ég vil líka þakka þingmanninum fyrir að hafa komið þessu máli á dagskrá á sínum tíma vegna þess að það varð mögulega til þess að ýta við ráðuneytinu að gera þessa breytingu, þessa reglugerð sem sett var og er til mikilla bóta að mínu viti.

Í umræðunni í fyrra kom fram að Ísland væri eina ríkið í Evrópu þar sem þetta væri heimilt. Síðan hefur komið í ljós að þetta er nú hvergi bannað í Evrópu eða var það ekki samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum í nefndinni á síðasta þingi. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það hefði orðið einhver breyting á því, hvort eitthvert Evrópuland hefði bannað þetta?