Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:26]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fína ræðu. Ég ætlaði svo sem ekki að koma hér upp aftur en mig langaði hins vegar að gera það eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns þar sem hann talaði um að útflutningur á íslenska hestinum skipti engu máli í þessu samhengi, að þetta snerist um dýraníð og samkvæmt skilgreiningu flutningsmanna frumvarpsins er blóðtaka úr þessum hryssum dýraníð. Ástæðan fyrir því að ég talaði í ræðu minni áðan um útflutning á íslenska hestinum er einfaldlega sú að í ræðum og orðræðu málsins á síðasta þingi, 152. þingi, var það ein af röksemdafærslum flutningsmanna tillögunnar að þetta myndi hafa skaðleg áhrif á útflutning á íslenska hestinum og skaða ímynd hans erlendis. Það er þaðan komið, ekki frá mér. Þannig að mig langaði einfaldlega að spyrja og spurði hvort það hefði í raungerst á þessu ári sem menn óttuðust að sala á íslenska hestinum myndi fara niður á við út af þessu máli, sem ég held að hafi ekki gerst, ég hef ekki séð tölur um það.

Varðandi dýraverndina þá ætla ég alls ekki að gera lítið úr sjónarmiðum flutningsmanna þessarar tillögu um að í þessu tilfelli sé um dýraníð að ræða. Ég ætla þó bara að benda á að skiptar skoðanir eru um það. Í þessu mikla riti frá matvælaráðuneytinu, sem heitir Blóðtaka úr fylfullum hryssum — starfsemi, regluverk og eftirlit, sem kom í kjölfarið, eru það Dýralæknafélag Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Eggert Gunnarsson dýralæknir, fagráð um velferð dýra og Félag hrossabænda sem telja öll (Forseti hringir.) að leyfa eigi þetta með sterkari skilyrðum.