Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

131. mál
[17:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála þeirri gagnrýni hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar kemur að framgöngu landlæknisembættisins gagnvart Köru Connect, vegna þess að það er það mál sem hv. þingmaður er að vitna til. Ég hef nú tekið til máls opinberlega og gagnrýnt það harðlega og það er rétt sem hv. þingmaður segir, að þetta er ekki til að auka hér skilvirkni og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins. En það er kannski ekki sanngjarnt að ætlast til þess að ráðherra gangi fram með þeim hætti sem hv. þingmaður ætlar sér. Ég tel mig þekkja hæstv. heilbrigðisráðherra betur en svo og veit hvar hjarta hans slær í þeim efnum. En látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég er líka að velta fyrir mér er að það er frekar óljóst í tillögunni hvernig flutningsmenn vilja að hæstv. forsætisráðherra standi að verki, forsætisráðherra er bara falið að gera þetta en síðan er engin forskrift. Ég sé ekki heldur í greinargerðinni forskrift að því hvernig skynsamlegast sé að standa að verki fyrir utan það að fá sérfræðinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar, sem er ágætt. Ég held að við getum lært mikið af því og það skiptir okkur máli og þeir hafa unnið úttektir fyrir okkur áður sem hafa skipt máli og gert okkur — stundum er gests augað glöggt og við eigum ekkert að vera feimin við það. En mér finnst vanta skýrari forskrift að því hvernig flutningsmenn sjá fyrir sér verklagið hjá forsætisráðherra, hvaða sérfræðingar eiga að koma að hér innan lands. Hafa flutningsmenn einhverja skýra hugmyndir um það? Á þetta að vinnast í einhvers konar samvinnu (Forseti hringir.) við hagsmunasamtök? Hv. þingmaður nefndi m.a. Neytendasamtökin (Forseti hringir.) í flutningsræðu o.s.frv. (Forseti hringir.) — Fyrirgefðu, frú forseti. Ég bara þakka kærlega fyrir.