132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:19]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað algjörlega útilokað að svara því á þessari stundu hvað verður á stefnuskrá Framsóknarflokksins á næstunni. Stefnan er öll alveg skýr núna. Við viljum skoða Evrópusambandið, en við segjum ekki að ganga eigi inn í það. Við viljum afla okkur upplýsinga og móta samningsmarkmið gagnvart hugsanlegum aðildarviðræðum. Það er stefna okkar. En eins og ég sagði áðan í ræðu minni og reyndar líka í andsvari skynjar maður ákveðna viðhorfsbreytingu, sérstaklega hjá unga fólkinu í flokknum. Segja má að innan Framsóknarflokksins séu að verða sterkari öfl, nýja fólkið, unga fólkið sem mun vaxa upp innan flokksins væntanlega er miklu jákvæðara gagnvart Evrópusambandinu en hin eldri kynslóð. Þetta er samt ekki svart/hvítt. Ekki er hægt að fullyrða þetta fyrir alla. Það er auðvitað líka ungt fólk innan okkar raða sem er algjörlega á móti Evrópusambandinu og eldra fólk sem vill skoða nánari samskipti við Evrópu. Ég er að reyna að gefa mynd af tilfinningu sem maður hefur gagnvart þessu máli í flokknum og líka þeim ályktunum sem hafa komið t.d. frá unga fólkinu í flokknum. Það er ákveðin breyting sem á sér stað í Framsóknarflokknum og ég tel að það sé mjög eðlilegt.

Varðandi það hvort við fáum einhverja sérstaka skoðun á sjávarútveginum ef við gerumst aðilar að ESB eða förum í samningaviðræður, þá tel ég talsvert miklar líkur á því vegna þess að ESB hefur engra sérstakra hagsmuna að gæta með því að fara inn í lögsögu okkar og ráða yfir henni. Stefnan er sú að menn eigi að ráða málum heima fyrir, það hefur verið þróunin innan Evrópusambandsins. En að sjálfsögðu fara menn ekki að svara því fyrir fram. (Forseti hringir.) Fyrst þarf að hefja viðræður um aðild ef menn ætla að fá svar.