133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að fá ráð frá þingmanni eins og hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni þó að þau séu reyndar býsna gagnslítil og lítið mark á takandi í þessum efnum.

Ég tel að ég sé búinn að lesa nokkuð vel, og hafi gert á undanförnum árum, verkefni og skýrslur Ríkisendurskoðunar. Ég ætla ekki að tala um að ég sé þar fullnuma. Ég get vel lært frekar. En ég hef mína skoðun og mat á því hvert verkefni hennar er og hvernig.

Hv. þingmaður vill draga hér inn í umræðuna hvort Halldór Ásgrímsson hafi verið hæfur eða ekki hæfur til að framkvæma þessa sölu. Þetta var mjög umdeilt mál og margir héldu því fram að hann væri ekki hæfur. Það vitum við báðir, herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér en það er hægt að taka þá umræðu ef þingmaðurinn óskar eftir því, og hverjar forsendur voru fyrir því að hæfi hans var dregið í efa. Þær voru býsna veigamiklar en svo vafalaust aðrar þar á móti. Ég ætla ekki að fara út í það núna nema þingmaðurinn óski eftir því.

Það sem ég lagði áherslu á er mitt mat á því hvert hlutverk og verkefni Ríkisendurskoðunar er, sem ég tel mjög mikil og ég lýsti því í ræðu minni að það þyrfti að styrkja gagnvart framkvæmdarvaldinu, framkvæmdarvaldi sem ég upplifi iðulega að beiti ofríki og yfirgangi gagnvart Alþingi og þingnefndum. Það þarf að standa vörð um stöðu Ríkisendurskoðunar í samskiptum Alþingis við framkvæmdarvaldið. Þetta vita allir og hefur oft verið rætt. Þess vegna vil ég efla Ríkisendurskoðun og standa vörð um hana.

Hins vegar tel ég, eins og ég vitnaði í áðan, að það hafi ekki verið hlutverk Ríkisendurskoðunar að kveða á um hæfi eða vanhæfi Halldórs Ásgrímssonar varðandi sölu á Búnaðarbankanum. Það er bara mín skoðun. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður getur verið á annarri skoðun (Forseti hringir.) og ég bara virði það.