133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:38]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Hér er verið að efna samkomulag sem gert var við Félag eldri borgara og tekið mið af þeirri niðurstöðu sem fékkst í nefnd sem um það fjallaði.

Hér er um umtalsverðar hækkanir á bótum að ræða og miklar úrbætur og það sem mér þykir ánægjulegast í þessu, frú forseti, er að gerð er dálítil einföldun á almannatryggingakerfinu. Samt er langt í frá að það sé orðið einfalt, langt í frá. Frumvarpið flækir þetta kerfi dálítið en flóknar reglur um skiptingu tekna milli hjóna gera það að verkum að tekjur makans hafi síminnkandi vægi.

Það er svo aftur annað sem mig langaði til að ræða, frú forseti, það er hlutverk fjölskyldunnar í kerfinu og hvort það sé sátt um þá stefnu sem menn eru að taka. Það sem um er að ræða er það að ellilífeyrisþegi eða örorkulífeyrisþegi sem er giftur eða kvæntur mjög tekjuháum maka á að fá nánast sömu tekjur og annar ellilífeyrisþegi eða makalífeyrisþegi sem á tekjulágan maka, þ.e. að það á ekki að taka eins mikið mið af tekjum makans og hingað til hefur verið gert. Svo þurfa menn að ræða um réttmæti þess eða ekki, að sá sem er í sambúð með tekjuháum maka eigi að fá nánast sömu bætur og sá sem býr með öðrum sem er tekjulágur. Þetta er atriði sem menn þurfa að velta fyrir sér og vera sáttir um. En það er sem sagt verið að minnka vægi fjölskyldunnar sem hefur farið hríðlækkandi á undanförum áratugum og síðustu öld má segja.

Eins og verið hefur koma einungis 60% af tekjum öryrkja til skoðunar þannig að skerðingin sem er 40% og niður í 38% er í reynd 23% af heildartekjum upp í 25% þannig að öryrkinn heldur eftir minnst 75% af tekjum sínum. Þar sem örorkumatið er þannig í dag að það þarf ekkert endilega að þýða tekjulækkun þá getur öryrkinn einstaka sinnum í rauninni unnið fulla vinnu áfram og haldið 80% af tekjunum engu að síður og fengið bætur eins og aðrir.

Þá komum við að öðrum vanda sem er vandi þeirra öryrkja sem ekki geta unnið og eru með lágmarkið. Lágmarkið fyrir einhleypa öryrkja var reyndar hækkað umtalsvert í þessu frumvarpi. Það er hækkað upp í tæpar 130 þúsund kr., úr tæpum 110 þúsund kr. og er náttúrlega mikil bót og munar um það þegar menn hafa ekki hærri tekjur. Sá sem ekkert getur unnið fær sem sagt tæpar 130 þús. kr. en sá sem getur t.d. unnið fyrir 250 þús. kr. er með tæpar 290 þús. kr. á mánuði og þá er spurning hvort mönnum finnist það vera eðlilegt eða ekki, þ.e. samanburður öryrkja sem ekkert geta unnið við hina sem geta unnið nánast fulla vinnu.

Sama á við um aldraða, það er mikil umræða um að geta unnið og ég tek undir það, ég vil að fólk sé hvatt til að vinna, bæði ellilífeyrisþegar og öryrkjar. En þá þurfa menn líka að vera sáttir við að sá sem getur unnið er með miklu betri heildartekjur en sá sem ekki getur unnið og það er þá eitthvað sem menn verða að sætta sig við.

Það eru ýmsir agnúar á þessu frumvarpi enn þá og mér sýnist að menn hafi ekki tekið mið af því að séreignarsparnaðurinn er frjáls sparnaður, herra forseti. Mér finnst að það sem menn taka frjálsa ákvörðun um og greiða fyrir, þó að það sé styrkt með framlagi atvinnurekandans, það eigi ekki að koma til skerðingar í Tryggingastofnun nema að því er varðar fjármagnstekjur af þeim tekjum. Ég hef flutt frumvarp um þetta sem ekki hefur fengið mikla umræðu, ég hygg að það sé vegna þess að menn hafi hreinlega ekki sett sig inn í það, en ég vil gjarnan að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd taki mið af því frumvarpi þegar hún fer að skoða greiðslur eins og séreignarsparnað. Niðurstaðan hefur verið sú, herra forseti, að fólki hefur verið ráðlagt að taka út allan séreignarsparnaðinn ári áður en það fer á lífeyri — sem er náttúrlega alveg andstætt öllum tilgangi með þeim sparnaði og með því frumvarpi sem var lagt fram — til þess að losna við skerðingarnar hjá Tryggingastofnun af þessum frjálsa sparnaði sem menn gætu bæði lagt inn og tekið út. Ég vil líta á þetta sem hverja aðra eign, við látum eignir ekki skerða bætur á Íslandi, þó að það sé gert víða um heim. En mér finnst að þegar fólk er að taka út eignir sínar þá eigi slíkt ekki að skerða bætur frá Tryggingastofnun nema menn ætli að hverfa frá þeirri hugsun að fólk sem á miklar eignir eigi að fá fullar bætur.

Svo er annað í þessu sem er ekki í þeim dæmum sem reiknuð eru hérna, það eru börnin. Það vill svo til að þegar fólk er vinnandi fær það yfirleitt ekki hærri laun þó að það sé með mörg börn á framfæri, vinnumarkaðurinn er ekki svo félagslegur þó að sumir þykist sjá þess merki að fólk með mikla framfærslu fái hærri tekjur og kannski sérstaklega karlmenn. Þegar fólk verður öryrkjar þá er allt í einu greitt mjög mikið fyrir börnin, bæði hjá Tryggingastofnun og eins hjá lífeyrissjóðunum. Þetta getur valdið töluvert mikilli skekkingu þannig að menn geta bætt tekjur sínar verulega við það að verða öryrkjar, þeir sem eru með t.d. þrjú börn á framfæri.

Þetta er eitthvað sem menn þurfa að skoða og ég legg til að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd skoði þessi atriði og eins það þegar menn eru að fá eingreiðslur, hvort ekki sé hægt að taka upp enn meiri samtímavinnslu hjá Tryggingastofnun þannig að ekki komi til þess að maður sem fær eingreiðslu í dag, t.d. selur húsið sitt, fær heilmiklar fjármagnstekjur vegna mikilla hækkana fasteigna undanfarin ár, og fær svo högg ári seinna þegar skattframtalið kemur fram. Ég mundi vilja að menn væru upplýstir um að t.d. maður sem fær tíu millj. kr. hagnað af sölu fasteignar viti að á þarnæsta ári verði hann bótalaus.

Ég fagna þessu frumvarpi og þeim skrefum sem stigin eru til einföldunar í því og legg til að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd skoði þetta. Svo vil ég benda á það, herra forseti, að menn þurfa að gera miklu betur. Það er heilmikil ástæða til þess að skera allt tryggingakerfið upp eða skera allar bætur Tryggingastofnunar upp, horfa á málin frá alveg nýju sjónarhorni og taka mið af þeirri umræðu sem fer fram í dag, að fólk vill vinna lengur, jafnvel hækka ellilífeyrismörkin. Þau voru ákveðin 1930 þegar dánarlíkur fólks voru miklu hærri og meðalaldurinn miklu lægri en í dag. Fólk er miklu sprækara í dag og mér finnst að þeir sem vilja vinna megi gjarnan vinna lengur atvinnulífinu til hagsbóta. Og þá vil ég undirstrika mjög skarpt, af því að fólki hefur verið gjarnt að misskilja það sem ég segi, að þeir sem vilja vinna, ég er ekkert að segja að það eigi að gilda fyrir alla heldur að þeir sem vilja vinna megi það fram yfir 67 ára eða jafnvel sjötugt, jafnvel áttrætt ef því er að skipta af því að fólk er miklu sprækara í dag. Sama viðhorf ætti að vera gagnvart öryrkjum, það ætti að reyna að rækta hæfileika öryrkjans til að vinna, skoða hvað hann getur en ekki einblína alltaf á hvað hann getur ekki. Þetta hef ég svo sem rætt áður og þetta er til skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um örorkulífeyri.

Aukning á hvoru tveggja, ellilífeyrinum og örorkulífeyrinum, hefur kostað lífeyrissjóðina óskaplega mikil fjárútlát. Mér finnst að þjóðin í heild sinni þurfi að skoða hvort ekki eigi að mæta því með því að nýta vinnugetu þessara hópa, bæði aldraðra og öryrkja, því að í mínum huga en vinnan engin áþján. Margir hafa gaman af henni og hún veitir fólki innihald og er félagslegt atriði. Það vilja mjög margir fara á ellilífeyri þangað til þeir þurfa að fara á ellilífeyri, þá vilja þeir það allt í einu ekki lengur, þannig að ég held að menn ættu að skoða þetta.

Svo þurfa menn að hafa í huga við allar umræður um bætur að allt er þetta greitt af einhverjum. Mér finnst stundum skorta á að sumir hv. þingmenn átti sig á því að það er ekki guð almáttugur sem borgar þessi útgjöld heldur er það skattgreiðandinn í landinu.