133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:37]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Í tilefni þeirra orða sem féllu í lok ræðu síðasta hv. ræðumanns þá langar mig að minna á að þegar ég tók til máls í fyrsta andsvari mínu lýsti ég ánægju með að hér skyldi vera komið fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, því að eins og ég sagði þá skiptir máli það skref sem hér er verið að stíga en það er samt sem áður gengið mun skemmra en nauðsynlegt hefði verið ef við horfum til þess hverjar tekjur manna í dag þurfa að vera til að þeir geti lifað og veitt sér lágmarksframfærslu.

Aðeins varðandi yfirlýsinguna sem er grundvöllurinn að þessu lagafrumvarpi, yfirlýsinguna sem skrifað var undir af hálfu ríkisins og Landssambands eldri borgara. Ég heyrði að hv. þm. Ásta Möller kallaði hana samkomulag og leggur áherslu á að hér sé um samkomulag að ræða. Ég held að flestir þingmenn hafi áttað sig á að Landssamband eldri borgara er hætt að nefna þetta samkomulag, og hefur kannski aldrei gert, heldur talar um yfirlýsingu sem skrifað hafi verið undir af hálfu beggja aðila. Ástæðan fyrir því er að við höfum heyrt það frá eldri borgurum að þeir telji að varðandi lífeyrisþáttinn og breytingarnar á lögum um almannatryggingar hafi þjónustuþátturinn, hin stoðin undir yfirlýsinguna eins og hæstv. ráðherra kallaði það, verið notaður til að berja þá til hlýðni varðandi stoðina um almannatryggingar. Ég spurði hæstv. ráðherra í stuttu andsvari hvort hann hefði ekki orðið var við þetta sjónarmið eldri borgara og hæstv. ráðherra svaraði mér því til að svo væri ekki. Eldri borgarar hefðu ekki verið kúskaðir til með þjónustuþættinum til að samþykkja þáttinn um almannatryggingar.

Sem betur fer eru símamál og tækni í þokkalega góðu lagi á Íslandi og eftir að ég hafði spurt hæstv. ráðherra og fengið svör hans barst mér blár miði eins og okkur þingmönnum berst oft og tíðum þegar aðilar úti í bæ vilja heyra í okkur eða láta okkur vita að þeir vilji ná í okkur. Miðinn var frá formanni eins aðildarfélags í Landssambandi eldri borgara sem vildi segja mér að formennirnir hefðu verið kallaðir til fundar, eftir að yfirlýsingin lá fyrir, með fulltrúum frá Ásmundarnefndinni og þar hefði þeim einfaldlega verið sagt, algerlega skýrt og á tærri íslensku: „Ef þið samþykkið ekki það sem hér liggur fyrir erum við aftur á byrjunarreit. Þá erum við ekki að tala um að þjónustuþátturinn líti svona út, þá erum við algerlega á byrjunarreit.“ Þessi formaður aðildarfélags að Landssambandi eldri borgara sagði mér að hann hefði eftir þetta sjálfur sagt hæstv. ráðherra frá þessu og að svona hefði verið staðið að þessum fundi. Því þætti mér vænt um að vita hvort hæstv. ráðherra geti ekki bara viðurkennt það að hafa heyrt þetta frá eldri borgurum og að þetta sé sjónarmið sem kemur mjög skýrt fram frá eldri borgurum í dag að þeim hafi verið þrýst til að samþykkja þessa yfirlýsingu vegna þess að þeim var hótað því að annars yrði ekki bætt úr þjónustuþættinum. Ég held að hv. þm. Ásta Möller hafi lýst því vel áðan, með biðlistum eftir hjúkrunarrými og slíku, hvað formenn aðildarfélaga Landssambands eldri borgara horfðu fram á þegar þeim var hótað með þessum hætti. Það má ekki verða nánast vani í þingsalnum að hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins fari eins og kettir í kringum heitan graut í kringum sannleikann. Það verður að fara að verða þannig í þingsalnum að ráðherrar axli þá ábyrgð sem að þeim snýr og viðurkenni hreinlega hlutina eins og þeir eru en reyni ekki sí og æ að skjóta sér undan ábyrgð.

Lög um almannatryggingar eru afar flókin og torskiljanleg fyrir flesta þá sem renna í gegnum þau og ég held að það sé full nauðsyn á því, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði fyrr í umræðunni, að taka þessi lög og endurskoða þau í heild sinni, að það sé ekki hægt að taka eingöngu ákveðna þætti út heldur þurfi að taka þau í heild sinni. Maður rekur sig fljótlega á það þegar maður les í gegnum almannatryggingalögin að þar rekst að mörgu leyti hvað á annars horn. Það er oft og tíðum verið að reyna að lagfæra einhverja ákveðna hluti, gera breytingar sem menn halda að séu til bóta, en þegar þeir fara að spila saman með öðrum þáttum kerfisins eru þeir kannski ekki eins til bóta og menn héldu þegar ráðist var í lagabreytingarnar. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að ráðast í endurskoðun á þessum málaflokki í heild sinni og það erum við ekki að gera í dag.

Ég las í gegnum frumvarpið sem við ræðum hér, um breytingar á þessum lögum, og ég varð að marglesa hvern kafla til að skilja hann, ég varð nánast að marglesa hverja grein til að skilja hana vegna þess að þetta er svo mikið torf og rekst svo hvað á annars horn að maður varð að fara fram og til baka til að átta sig á hvaða áhrif þetta hefði. Þetta hefur ekkert með greind að gera eða lesskilning eða eitthvað slíkt heldur eingöngu það að þessi mál eru flókin og viðamikil og eins og þeim er stillt upp í þessu lagamáli og lagatexta eru þau torskiljanlegt hverjum manni og ekki von til þess að margir kunni þessi lög í heild sinni.

Aðeins að frítekjumarkinu. Auðvitað eigum við að setja frítekjumark og setja það sem fyrst og sem hæst. Við búum við þær aðstæður á Íslandi í dag að skortur er á fólki á vinnumarkaði. Við búum við það að þeir eldri borgarar sem vilja reyna að auka ráðstöfunartekjur sínar með einhverjum hætti reka sig fljótlega á að það er ekki til neins. Skerðingarnar eru svo miklar, það er tekið svo mikið af því sem þeir afla að það er í raun og veru ekki til neins fyrir þá að standa í því að ná sér í einhverjar atvinnutekjur. Það hefur komið fram að lífeyrisþegi sem hefur tekjutryggingu ásamt greiðslu úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur haldi aðeins eftir 15–33% af þeim tekjum, í besta falli þriðju hverja krónu, að skerðingar og skattar væru 67–85% af hverri krónu sem þeir sem komnir eru á þennan aldur reyna að vinna sér inn. Auðvitað gengur þetta ekki og kostnaðurinn við þetta, eins og hv. þm. Ásta Möller lýsti hér áðan, er ekki sá að við getum ekki leyft okkur að gera þetta.

Það er nefnilega þannig með ríkissjóð að það er ekki bara hægt að tala um hvað fer út úr honum því að oft og tíðum ratar hver einasta króna aftur inn í ríkissjóð, og aftur og aftur í gegnum hina óbeinu skatta og í gegnum þjónustugjöld o.s.frv. Ég skora því á hæstv. ráðherra í tengslum við breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar að leggja svolítið meiri vinnu í að skoða í alvöru hvað það mundi þýða ef lífeyrisþegum væri heimilað að hafa hærri tekjur áður en skerðingar fara að koma á lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum.

Það er ekkert verið að tala um að þessar tekjur séu skattlausar. Auðvitað byrja menn að borga skatta eins og hverjir aðrir þegar þeir eru komnir inn í þetta kerfi og farnir að afla tekna og komnir yfir skattleysismörkin, en að þetta séu frítekjur þegar kemur að lífeyristryggingunum og almannatryggingunum. Ég er viss að hæstv. ráðherra og þeir sem reikna fyrir hann komast mjög fljótlega að því að kostnaðurinn við hver 100 þúsund á ári í frítekjumark gagnvart almannatryggingum er ekki ýkja mikill þegar upp er staðið.

Hæstv. ráðherra hlýtur líka að velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum stendur á því og af hverju menn eru að tala um að taka þetta frítekjumark fyrst upp á árinu 2009, löngu eftir að umboði núverandi ríkisstjórnar lýkur. Af hverju ekki að gera þetta núna strax um áramótin þegar tilkostnaðurinn er ekki meiri en raun ber vitni? Við verðum að fá einhver svör við því frá hæstv. ráðherra, af hverju 2009, af hverju ekki núna 1. janúar 2007? Hvaða skilaboð er verið að senda eldri borgurum og af hverju í ósköpunum er ekki hægt að gera þetta strax?

Sama er með skerðingarhlutföllin sem verið er að tala um. Árið 2007 á að fara úr 45% í 39,95%. Maður skilur ekki hver reiknar út svona tölur. Af hverju ekki bara 39% eða 40%, 39,95% skal það vera núna á árinu 2007 og lækka síðan niður í 38,35% á árinu 2008. Er ekki hægt að fara aðeins lengra varðandi skerðingarhlutföllin og horfa þá til þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar eins og hún liggur fyrir þar sem gert er ráð fyrir að fara niður í 35%?

Auðvitað fögnum við því að hér er verið að einfalda kerfið að einhverju leyti og verið að hækka tekjutrygginguna upp í 78.542 kr. Tillaga til þingsályktunar sem við í stjórnarandstöðunni lögðum fram, gerir ráð fyrir því að hækka tekjutrygginguna upp í 85 þúsund, það munar 6.500 kr. á mánuði og ég skora enn og aftur á hæstv. ráðherra að láta reikna það út enn og aftur hvað 6.500 kr., hvað veltuáhrif í ríkissjóð þýða þegar þau eru tekin inn í dæmið. Það þýðir ekkert að reikna þetta út bara sem útstreymi úr ríkissjóði, þetta kemur líka aftur inn í ríkissjóð að einhverju leyti og talsvert miklu leyti.

Annað sem mig langar að gera að umræðuefni þó að það tengist kannski ekki beint því sem við erum að ræða hér, en það er skattlagning lífeyristekna. Það kemur inn í ráðstöfunartekjur þeirra sem eldri eru orðnir. Af hverju er þessi þrjóska í gangi hjá ríkisstjórninni að vilja ekki skoða það með lífeyristekjur að þetta séu í raun tekjur af sparnaði, þetta séu í raun fjármagnstekjur? Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að útskýra það fyrir lífeyrisþegum að ef þeir hafa nú lagt til hliðar í banka en ekki greitt í lífeyrissjóð og séu að taka af því rentur í dag þá borgi þeir 10% skatt af því? Sjálfstæðir atvinnurekendur sem ekki voru í lífeyrissjóði, þeir aðilar sem gátu komið sér hjá því, eins og það var kallað á sínum tíma, að greiða í lífeyrissjóð meðan reglurnar voru ekki svo strangar að allir þyrftu að greiða í lífeyrissjóð — það var a.m.k. ekki gengið eftir því að allir gerðu það — þeir sem mynduðu sér þá lífeyrissjóð í formi eigna eða í formi fjármagns sem þeir lögðu til hliðar en lögðu það ekki inn í þá samtryggingarsjóði sem við höfum, þeir greiða 10% af því sem þeir eru að taka út úr sparnaði sínum, þ.e. lífeyrissparnaðinum. En þegar kemur að þeim sem ekki voru í þeirri aðstöðu að geta farið annað með það fé sem greiða átti í lífeyrissjóð heldur greiddu samviskusamlega af hverri einustu krónu í lífeyrissjóðinn, þegar kemur að því að þeir ætla að fara að taka út af sínum lífssparnaði rentur þá skal skattleggja það upp á rúm 38%.

Ég skil ekki með hvaða rökum ríkisstjórnin mætir þessu fólki og segir: Þetta er sanngjarnt. Þetta er svo langt frá því að vera sanngjarnt að ég held að hver einasti maður sem í alvöru skoðar þetta átti sig á því fljótlega að hér er grófleg mismunun á ferðinni og það er verið að mismuna þeim sem voru að vinna hjá öðrum, voru fastir launamenn með fastar mánaðartekjur og greiddu samviskusamlega í lífeyrissjóð.

Aðeins um það að hæstv. ráðherra sagði áðan að enginn ætti að fá minna en 88 þús. kr. á mánuði eftir breytingu á reglugerð. Ég vil að hæstv. ráðherra staðfesti það hér og nú að það sé staðreynd frá og með deginum í dag, eða frá því að reglugerðin var undirrituð, að allir þeir sem fá greiðslur út úr þessu kerfi fái að lágmarki 88 þús. kr. á mánuði. Ég vil að hæstv. ráðherra staðfesti að þeir sem nú eru að greiða til baka það sem ofgreitt hefur verið, að ekki sé gengið nær þeim en það að eftir verði 88 þús. kr. á mánuði hjá hverjum og einstökum. Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherra staðfesti þetta við okkur þannig að við getum fengið það á hreint úr ræðustól að svona sé þetta. Mig rennir í grun að þetta sé ekki alveg svona hjá hverjum og einum, að hver einasti maður og kona sem fá greiðslur út úr almannatryggingum miðað við þá breytingu sem gerð var núna á reglugerðinni fái að lágmarki 88 þúsund á mánuði, þrátt fyrir að verið sé að taka af þeim ofgreiðslur.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessar 88 þús. kr. koma til. Í tillögu til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan lagði fram var gert ráð fyrir því að framfærslugrunnur fyrir eldri borgara yrði reiknaður út og reynt að stilla þetta þannig af að þegar búið væri að komast að því hver framfærsluþörfin væri þá væri þetta stillt af með þeim hætti að fólk væri ekki að fá undir því. Því við hljótum öll að geta verið sammála um að það gengur ekki og mun aldrei geta gengið til lengdar að það sé einhver hópur, stór eða lítill, í þjóðfélaginu sem hefur mun minna en þarf til lágmarksframfærslu, þ.e. að uppfylla lágmarksgreiðslur til þess að komast af.

Þegar ég hef rennt í gegnum lögin um almannatryggingar og reynt að skilja þau hefur mér oft virst að í staðinn fyrir að þetta séu lög sem sett eru til að hjálpa þá séu oft inni í þeim greinar sem settar eru til að refsa, að hugmyndafræðin hafi í raun snúist við þannig að þeir sem þó reyna að hjálpa sér sjálfir að þeim er refsað fyrir það með einum eða öðrum hætti eins og við höfum kannski séð í gegnum allt of miklar tekjutengingar, allt of miklar skerðingar og skorti á frítekjumarki.

Eins og ég sagði áðan þegar við ræðum almannatryggingarnar og lögin um almannatryggingar verðum við að hafa það í huga að við erum að tala um fólk, við erum að tala um einstaklinga, við erum ekki bara að tala um prósentur eða krónur og aura og þegar við ræðum um skerðingarhlutföll, um frítekjur og tengingar við tekjur maka o.s.frv. þá erum við alltaf að ræða um einstaklinga, við erum alltaf að ræða um fólk og því megum við aldrei gleyma.

Auðvitað er margt gott í þessu frumvarpi, það má alls ekki misskilja mig með það, það er margt gott í því og hér er verið að stíga skref í rétta átt. Ég vil ekki fara úr ræðustóli með það að menn haldi að mér finnist að ekkert sé verið að gera. Það er ekki rétt. Hér er verið að stíga skref í rétta átt. En það er verið að taka of lítið skrefið og allt of lítið þegar við horfum til þess hvernig ríkissjóður hefur á undanförnum árum fengið tekjur langt, langt umfram það sem nokkur gat gert ráð fyrir. Við sjáum það, eins og ég sagði áðan, bara á fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir upp á 270 milljarða í tekjur á næsta ári og á fjáraukalagafrumvarpinu sem einnig liggur fyrir þar sem ríkið fær rúma 40 milljarða í auknar tekjur umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir, þá sjáum við að það er borð fyrir báru. Ef hér væri ríkisstjórn sem væri félagshyggjuríkisstjórn, ríkisstjórn sem bæri hag þeirra sem minna mega sín fyrir brjósti þá er ég viss um að það skref sem hér væri verið að stíga væri stærra og það væri meira í því en verið er að kynna fyrir okkur nú.

Því miður verður að segja eins og er að auknar tekjur ríkissjóðs, góðærið og þenslan sem verið hefur, hefur ekki verið notað í nægjanlega ríkum mæli til að gera hag þeirra sem minna mega sín betri. Við þekkjum það í gegnum skattkerfið hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á því að breyta skattkerfinu þannig að þeir sem allra hæstu launin hafa, og þá er ég að tala um hundruð milljóna á ári í laun, að þeir njóta verulega í minnkaðri skattbyrði, en þeir sem eingöngu hafa lágmarkslaun eða föst mánaðarlaun sem eru svona við það sem við getum kallað eðlileg laun, þeir bera allir hærri skattbyrði nú en þeir gerðu áður en ríkisstjórnin fór að hræra í skattkerfinu. Ég held að hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn væri nær að nýta þennan tekjuauka og hinn góða hag ríkissjóðs til að leggja meira í þann málaflokk sem við erum að tala um hérna þannig að meiri bragur væri að en nú er.