135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

flutningsjöfnunarstyrkir.

136. mál
[13:39]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Í mínum huga er ljóst að málflutningur okkar framsóknarmanna hefur náð í gegn til hæstv. viðskiptaráðherra. Það væri mjög ankannalegt í ljósi niðurskurðarins á þorskkvótanum í 130 þús. tonn að það ætti að leggja niður jöfnunarsjóð olíuvara. Vissulega er gott og þarft verkefni að koma með flutningsstyrk upp á 150 millj. til Vestfjarða en að hafa það tímabundið og láta það um leið ekki ná til annarra landshluta var að okkar mati ekki nógu jákvætt.

Í gær talaði ég fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald, um að þeim yrði veittur afsláttur sem stunda flutninga, þá þannig að þeir fengju 50% af olíugjaldinu. Þetta á að ná til allra ótímabundið (Forseti hringir.) þannig að við framsóknarmenn teljum það þá leið sem eigi að fara og bendum (Forseti hringir.) þeirri nefnd sem á að stofna á að kíkja á það frumvarp.

(Forseti (EMS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)