137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Innlegg mitt í þessa umræðu langar mig að tengja þeim umræðum sem hafa verið í þjóðfélaginu undanfarið og snýr að hlutverki lífeyrissjóðanna í þeirri endurreisn sem nú á sér stað og framlagi þeirra inn í t.d. svokallaðan stöðugleikasáttmála.

Lífeyrissjóðir landsins hafa sérstaklega horft til verkefna og ég vil segja því miður oft verkefna eins og vegaframkvæmda þegar þeir horfa til þess með hvaða hætti þeir geti styrkt atvinnulíf í landinu. Ég fagna því að lífeyrissjóðirnir hyggjast koma markvisst að endurreisn íslensks atvinnulífs og ég tel t.d. að Hvalfjarðargöng hafi verið mjög mikið framfaraskref á sínum tíma en tvöföldun þeirra í dag, eins og hefur heyrst, og tvöföldun annarra þjóðvega sé hins vegar í ósamræmi við þá forgangsröðun sem við þurfum að viðhafa um þessar mundir. Mín skoðun er sú að fjármunum sjóðanna eigi frekar að verja til verkefna sem nýtast vaxtarbroddum í atvinnulífi landsmanna, svo sem útflutningi eða ferðaþjónustu, og mig langar að taka eitt dæmi í því sambandi.

Um þessar mundir eru til umræðu hugmyndir um uppbyggingu á vinsælum ferðamannastöðum og horft er til möguleika á gjaldtöku eða til skattlagningar. Til greina kemur að taka upp gjaldtöku við komu eða brottför til landsins, við kaup á gistingu eða á stöðunum sjálfum. Hér mundi ég vilja sjá lífeyrissjóðina grípa strax inn í með afgerandi hætti og leggja fram stofnfé til framkvæmda til bættrar þjónustu við okkar helstu náttúruperlur. Þannig gætum við strax farið í mannaflsfrekar framkvæmdir og um leið stutt við bakið á helsta vaxtarbroddi íslensks atvinnulífs. Lífeyrissjóðirnir mundu svo fá sitt fjármagn til baka yfir lengri tíma og kröfum þeirra um arðsemi fjárfestinga yrði þannig mætt. Fjárfestingar lífeyrissjóðanna eiga þannig að fara til uppbyggingar á sjálfbærum atvinnurekstri, það á að skapa grundvöll fyrir störf sem geta lifað eftir að innspýtingu er lokið. Þannig á fjárfestingarstefnan að leggja grunn að sókn til langframa en ekki reddingu til skamms tíma.