137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þingsályktunartillöguna sem hún flytur ásamt mörgum öðrum, ég fagna henni mjög. Það er mikilvægt að fyrirtækjum sé hjálpað áður en þau fara í þrot, gríðarlega mikilvægt. Það kemur fram í greinargerðinni að þetta snýst kannski fyrst og fremst um minni fyrirtæki og einyrkja vegna þess að hinir stærri hafa oft betri aðgang og þekkingu til að leita sér hjálpar.

Það er vitað mál að við erum í efnahagslegu fárviðri og það er gríðarlega mikilvægt að við komum fyrirtækjunum í gang aftur. Ef við komum þeim ekki í gang munum við ekki geta hjálpað heimilunum. Það er algert samasemmerki þar á milli. Það er því gríðarlega mikilvægt að við stígum þetta skref. Þó að persónulega sé ég ekki hrifinn af því að vera að stofna eina ríkisstofnunina enn verð ég að viðurkenna að mér líst ágætlega á þessa hugmynd, og bara vel.

Í þessum texta kemur fram, og það þykir mér mjög ánægjulegt, að mikilvægt er að ráðgjafarstofan starfi náið með öðru stuðningskerfi við atvinnulífið því að víða er boðið upp á stuðning fyrir atvinnulífið, t.d. hjá Nýsköpunarmiðstöðinni. Við erum líka með atvinnuþróunarfélögin á mörgum öðrum stöðum sem vinna mjög náið með fólki sem lendir í erfiðleikum. Ég fagna því mjög þessari þingsályktunartillögu og eins og athygli hefur verið vakin á eru á henni þingmenn úr öllum flokkum. Ég vænti þess, og tek undir með flutningsmanni, hv. þm. Eygló Harðardóttur, að tillagan fái brautargengi á þessu sumarþingi og við getum klárað hana — hæstv. ráðherra verður þá við því að ganga til þeirra verka því að það er gríðarlega mikilvægt að tefja ekki tímann frekar.