138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu og ég get sagt að ég fer vel nestuð úr henni. Fyrst langar mig að segja að það gleður mig að heyra að nýju þann samhljóm hér um framhaldsdeildirnar sem hafa verið stofnaðar í Fjallabyggð, Patreksfirði og Þórshöfn, og ég held að það séu ákveðin sóknarfæri með gerbreyttri stöðu út frá tækni og tólum.

Háskólanámið hefur kannski minna borið á góma en ég vil nefna að í samningi ráðuneytisins við Háskóla Íslands, af því að hv. þingmaður og málshefjandi nefndi hann sérstaklega, er kveðið á um eflingu fjarnáms og þjónustu við landsbyggðina. Reynslan hefur sýnt að þegar kennarar hefja kennslu í dreifnámi skilar sú aðferðafræði sér einnig inn í staðbundið nám. Hins vegar vil ég nefna það líka að ef við lítum á háskólana hafa landsbyggðarháskólarnir kennt hlutfallslega mest í dreifnámi og þar má nefna bæði Bifrastarháskóla og Háskólann á Akureyri sem hafa verið mjög framsæknir í þessum efnum sem og Hólar og Hvanneyri. Síðan höfum við líka séð aukningu í þessu hjá reykvísku háskólunum, ef svo má að orði komast, en landsbyggðarháskólarnir virðast meðvitaðri um mikilvægi þessa náms, ekki síst auðvitað af því að stærstur hluti nemenda í fjarnámi kemur af landsbyggðinni og nýtir sér námið með þessum hætti.

Hvað varðar forgangsröðun sem hér hefur líka verið nefnd held ég að það sé mjög mikilvægt að við skoðum hana í góðu samráði, hugsanlega í slíkum starfshóp, til þess að námið nýtist þá best þeim sem ekki geta stundað staðbundið nám. Ég held að það sé áhugavert að skoða þetta og án þess að við hættum okkur inn á braut of mikillar miðstýringar, eins og hér hefur verið nefnt, held ég eigi að síður að skólarnir geti náð samlegðaráhrifum með því að vinna saman og minnka þannig áhrif þess niðurskurðar sem nú er boðaður.

Ég held að framtíðarsýnin geti verið björt í þessum geira. Við höfum séð gríðarlegar framfarir á undanförnum árum í þessum efnum og ég held að gæði þess fjarnáms og dreifnáms sem er í boði skili sér bæði til nemenda og kennara þannig að ég held að með samstilltu átaki getum við haldið þeirri þróun áfram.