138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Það er alveg ljóst að ég er mjög hlynnt þessum minnihlutarétti þingmanna til að geta ákveðið þjóðaratkvæðagreiðslur og að þjóðin hafi þann rétt líka en ég vil bara undirstrika að ég tel að það sé varla gerlegt nema þá ráðgefandi atkvæðagreiðsla eða gert með breytingum á stjórnarskránni. Mér finnst kannski að í tillögu þingmannsins sé ekki nægilega skýrt kveðið á um það í frumvarpstexta að hér sé aðeins um ráðgefandi þjóðaratkvæði að ræða undir þessum formerkjum þó að það komi vissulega fram í greinargerðinni.

Varðandi Lýðræðisstofuna sem við ræddum áðan hljótum við að skoða það líka, enda var þetta í þingsályktunartillögunni um aðildarumsókn að ESB. Ég velti aðeins fyrir mér hvort hún geti verið undir stjórn umboðsmanns Alþingis og hvort það samræmist verkefnum hans að svo sé, það þyrfti að athuga það. Ég fellst á það og auðvitað er það líka í valdi nefndarinnar að skoða þessi mál saman hvort það eigi að veita þarna meiri rétt en þá verður það að vera skýrt að hann er einungis ráðgefandi og þá þarf líka að koma fram, sem mér finnst ekki koma fram í máli þingmannsins, hvaða mál það eru sem mættu falla undir minni hluta þingsins og þennan rétt þjóðarinnar í þeim tilvikum sem hann er ráðgefandi. Mér finnst að það þurfi að skilgreina það frekar.

Að öðru leyti þakka ég þingmanninum fyrir ræðu hans. Það hefur hvorki farið fram hjá mér né öðrum að Hreyfingin vill beita sér mjög fyrir lýðræðisumbótum og hefur sýnt það þann tíma sem hún hefur verið á þingi.