138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:29]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Álit meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis endurspeglar þá góðu samvinnu sem var t.d. milli þáverandi Borgarahreyfingarinnar og núverandi Hreyfingar og formanns og varaformanns utanríkismálanefndar. Við komum að þessu máli með þeim hætti að við vildum tryggja framgang lýðræðisins við umfjöllun um inngönguna í Evrópusambandið og unnum talsvert mikið með utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd þó að leiðir hafi skilið síðar. Hvað varðar atkvæðagreiðsluna um umsóknina þá var engu að síður samstarfið alltaf gott við formann og varaformann utanríkismálanefndar og þessar hugmyndir Borgarahreyfingarinnar komust einmitt inn í greinargerðina í gegnum það. Við virðum það og kunnum vel að meta það.

Það kom mér kannski ekki á óvart að þær tillögur rötuðu ekki inn í þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar því að ég stóð í langri glímu við þann embættismann sem samdi þetta frumvarp. Þeim embættismanni varð ekki þokað til né frá varðandi breytingar á því, það var alveg sama hvað við reyndum. Þess vegna m.a. varð frumvarp Borgarahreyfingarinnar í sumar og svo Hreyfingarinnar núna í haust ásamt fleirum til. Það var út af því að þeir embættismenn sem leiddu vinnuna við frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur voru ósveigjanlegir í því að hleypa þar að breytingum sem okkur fannst nauðsynlegar.