138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir andsvarið. Þó að ég hugsi stórt er ég ekki enn komin svo langt að ætli að fara að breyta fyrirkomulagi Evrópuþingsins en hver veit.

Menn tala um lýðræði og lýðræðishalla og ég segi: Í íslenskum kosningum er lýðræðishalli. Þar er ekki einn maður eitt atkvæði og meðan svo er er lýðræðishalli í kosningum til Alþingis. Það er ekki svo í kosningum til sveitarstjórna en það er í kosningum til Alþingis og það vekur furðu. Það er ekki í kjöri forseta Íslands en það er í kosningum til Alþingis og því þarf einfaldlega að breyta. Það er algjörlega klárt og kvitt.

Ég er sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni hvað það varðar að þjóðin á að sjálfsögðu að geta óskað eftir — mér finnst þetta vont orð „knúið“ fram vegna þess að mér þykir það vera gert með einhverju afli — þjóðin á að geta óskað eftir því að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. 10–15%, ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að mér þykir það heldur lágt að það séu 10–15% kosningarbærra manna sem eiga að geta óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel ástæðu til að fara aðeins ofar með það. Ég ræddi það held ég í umræðunni um þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp Borgarahreyfingarinnar að í Sjálfstæðisflokknum eru um það bil 50 þúsund manns, 10% þjóðarinnar gætu verið sárafáir sjálfstæðismenn sem gætu knúið fram eða óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekki viss um að það hafi verið hugmynd þeirra sem lögðu fram frumvarpið en þjóðin á að geta óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.