139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. tveir síðustu þingmenn gera að umtalsefni fund ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Suðurnesjum í gær. Ég tel að þessi fundur hafi verið sérstaklega mikilvægur fyrir okkur Suðurnesjamenn og að fyrir hann beri að þakka.

Sveitarstjórnarmenn og ríkisstjórnin staðfestu þar með táknrænum hætti skýran vilja til samstarfs um atvinnuuppbyggingu á svæðinu og þótt báðir aðilar hafi lýst yfir vilja til samstarfs áður hafa skeytasendingar verið með þeim hætti að efast hefði mátt um eindreginn vilja. Þess vegna skipta þau jákvæðu skilaboð sem komu frá fundinum í gær mjög miklu máli.

Það er einnig mikilsvert að á sama tíma og unnið er að atvinnuuppbyggingu sé tekist á við þau félagslegu vandamál sem kreppan og atvinnuleysið hafa skapað á Suðurnesjum. Það að lengja hámarkstímabil greiðslu atvinnuleysisbóta úr þremur árum í fjögur skiptir sveitarfélögin fjárhagslega miklu máli á svæði þar sem langtímaatvinnuleysi er staðreynd og fjárhagsaðstoðin í höndum sveitarfélaganna. Einnig er öruggt að það að starfsemi umboðsmanns skuldara verði staðsett á Suðurnesjum skiptir skjólstæðinga hans á svæðinu máli.

Neikvæð áhrif kreppunnar koma skýrast í ljós í afleiðingum atvinnuleysis á einstaklinga og fjölskyldur. Það að ríkisstjórnin skuli leggja fram fjármagn til að ráðinn verði verkefnisstjóri til að halda utan um samstarf sveitarfélaganna í velferðarmálum með aðkomu Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og umboðsmanns skuldara tryggir m.a. bæði upplýsingaflæði og styttir boðleiðir þeirra sem eru að takast á við þennan mikla vanda. Framlag til að tryggja rekstrargrundvöll og samstarf skólanna á Suðurnesjum, til að þróa ný fjölbreytt námsframboð, námsráðgjöf og hvatningu til þeirra sem hafa minnstu menntunina eða eru án atvinnu er einnig jákvætt og mikilvægt skref. Ég hef lagt á það áherslu að jafnaðarmenn leggi Suðurnesjamönnum aukið lið við að takast á við vanda svæðisins. Það er gert og því þarf að fylgja eftir.