139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður fullneikvæður við umræðu um þetta góða mál þó að ég skilji náttúrlega hver ástæðan er, en það er þetta hryllilega hrun sem við lentum í. En þegar hv. þingmaður talar og lýsir jafnvel efasemdum um svona styrkjakerfi þá erum við ekki að finna upp hjólið. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þá styðjumst við m.a. við þá aðferð sem Norðmenn hafa farið með ágætum árangri.

Ég veit að hv. þingmaður hlýtur að deila því með mér, eftir að hafa ferðast um landið, að það er unnið að nýsköpun og þróun á mörgum stöðum. Ég get nefnt sem dæmi á Ólafsfirði. Þar eru litlar vélsmiðjur sem eru að vinna stórmerkilega hluti. Það sem hefur skort á hefur verið það að þessi fyrirtæki hafi fengið stuðning til að þróa vörur sínar alla leið. Oftar en ekki hafa menn lent á milli skips og bryggju einhvers staðar í þessu ferli þannig að ég tel að við þurfum að skoða samfelluna í þessu máli. Mér finnst ekkert að því að hið opinbera komi að því að stuðla að nýsköpun með því m.a. að veita skattafslætti.

Ef hugmyndin gengur upp þá er hún okkur öllum til góða. Hún mun auka tekjurnar í samfélaginu og hún mun fjölga störfum þannig að ég er ekki eins neikvæður og mér fannst hv. þingmaður vera á það að hið opinbera komi að beinum stuðningi eins og við erum að ræða um hér með því að veita m.a. skattafslátt.

Talandi um Vélsmiðjuna í Ólafsfirði þar sem ég gæti þekkt vel til: Ef ég hefði trú á því verki sem þar færi fram og þeirri hugmyndafræði sem þar væri verið að vinna eftir mundi ég glaður leggja fram hlutafé í slíkt. Við erum ekki alltaf að tala um Kaupþing, Landsbankann eða einhver slík fyrirtæki. Við erum oft að tala um lítil fyrirtæki sem eru að vinna að spennandi verkefnum og að sjálfsögðu, ef ég hefði trú á því, mundi ég ráðast í slíka fjárfestingu. En ég er sammála hv. þingmanni í því að til framtíðar litið þurfum við að endurskoða hvað fór úrskeiðis og hvernig við ætlum að byggja upp traust á þessu sviði sem eru viðskipti með hlutabréf á Íslandi meðal annars.